Opið bréf til Húsvíkinga og annarra Þingeyinga

 Í 15 ár (nánast upp á dag) var Húsavík bærinn minn og dóttur minnar, bær sem okkur þótti vænt um, bær þar sem við höfðum eignast góða vini, bær þar sem við höfðum komið okkur vel fyrir í litla húsinu okkar á Uppsalaveginum. Ég var ákveðin í að búa á Húsavík þó ég hefði ekki endilega ákveðið að bera þar beinin og dóttir mín sagðist alltaf vilja búa þar. Ég vann í sex ár á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga og tæp níu ár í Hvammi. Ég var leiðbeinandi á ýmsum námskeiðum sem haldin voru á vegum Verkalýðsfélags Húsavíkur (nú Framsýnar), ég var oft beðin um að kynna stöðu öldrunarmála í sýslunum og ég bar hag aldraðra alltaf fyrir brjósti. Ég hélt að ég hefði gert góða hluti meðan ég bjó á Húsavík en það voru svo sannarlega ekki allir sammála því eins og átti eftir að koma á daginn. Dóttir mín fór í menntaskóla í Reykjavík eftir að hafa verið einn vetur í Framhaldsskólanum á Húsavík svo ég var ein fyrir norðan á veturna nema þegar hún kom í heimsókn. 

Við vorum nokkrar stelpurnar (ásamt Jósa og Svenna)sem fluttum til Húsavíkur á svipuðum tíma, Gunna hjúkka og ég fluttum sömu helgina norður árið 1996, Helena hjúkka kom árið eftir ásamt Hjörtínu hjúkku og Elsu þroskaþjálfa. Áslaug hjúkka kom svo aftur 1998 og árið 2001 komu svo Elsa iþjuþjálfi og Sveinbjörn sjúkraþjálfari. Við héldum vel saman "aðkomupakkið" og fengum Abba og Möggu Tolla í lið með okkur, stofnuðum matarklúbb, saumaklúbb og þorrablótsklúbb......þá eru ótaldar árshátíðirnar sem við fórum á og kaffibollarnir sem sopið var á ásamt því að borða heimilisbrauð með hangikjöti og salati.....já þetta voru svo sannarlega yndislegir tímar. Ég kynntist líka fullt af heimafólki, átti góða kunningja og eignaðist vini í þeirra hópi. Auðvitað má segja að maður hafi gengið í gegnum ýmislegt í persónulegu lífi svona eins og gengur en atvinnulega vissi ég ekki annað en mér gengi vel og ég stæði nig vel í starfi. Annað kom á daginn.....

Mér var sagt upp starfi mínu hjá DA í mars 2011 eins og mörgum er kunnugt. Það gerðist skyndilega og algerlega að tilefnislausu. Grunnur tilveru minnar var þar með brostinn, ég hafði gert fjárhagsskuldbindingar sem byggðust á því að ég hefði þau laun sem ég hafði hjá DA. Ég flutti suður, kötturinn var svæfður þar sem við gátum ekki haft hann í íbúðinni sem við leigðum í Reykjavík, ég fékk vinnu í borginni en 40% lægri laun. Það var alveg sama þó að ég prjónaði lopapeysur sem ég seldi og seldi Tupperware til að drýgja tekjurnar, allt kom fyrir ekki. Vanskilin hlóðust upp og varla sá högg á vatni. Áslaug fyrrum vinkona mín hafði skrifað upp á lán fyrir mig og stendur nú í því að borga af því þar sem ég hef ekki bolmagn til þess eins og staðan er í dag. Ég er ekki stolt af því en get ekkert gert eins og er. Ég á ekki efnaða fjölskyldu sem ég get leitað til og bankarnir hafa lokað á mig. 

Það eitt að þurfa að flytja búferlum getur verið erfitt þó að ekki bætist við það atvinnumissir, ærumeiðingar og vinslit. Þannig var það í mínu tilviki! Síðan eru liðin þrjú ár. Þrjú ár sem hafa verið ótrúlega erfið. Á þessum þremur árum hef ég gengið í gegnum helvíti, helvíti sem ég óska engum að þurfa að ganga í gegnum. Helvíti skapað af fólki á Húsavík sem ég í raun þekki ekki neitt. Fólki sem einhverra hluta vegna vildi mig burt en þótti það ekki nóg þannig að þau tóku upp á því að kæra mig fyrir þjófnað. Málið var rannsakað af rannsóknarlögreglu sem felldi það niður en nei nei, þetta frábæra fólk sætti sig ekki við þá niðurstöðu og kærði hana til Ríkissaksóknara sem staðfesti niðurtöðu rannsóknarlögreglu.  Mér var létt og var loks sannfærð um að nú fengi ég frið fyrir þessu fólki sem einhverra hluta vegna óskar mér ills. 

Þessi reynsla síðustu ára hefur svo sannarlega haft áhrif á heilsufarið mitt. Ég hef gengið í gegnum allan tilfinningaskalann mörgum sinnum, verið reið, sár og leið. Dóttir mín hefur verið mér mikil hjálp auk annarra meðlima í minni litlu fjölskyldu. Þar má ég þó til með að nefna minnstu krílin, þau Ingu Soffíu, Stefán Daða og Margréti Birtu. Þau hafa reyndar enga hugmynd um hvað þau hafa hjálpað mér mikið en ég segi þeim það kannski seinna. Í dag er ég hins vegar ekki reið en þeir einstaklingar sem hafa staðið fyrir þessu einelti gegn mér geta hrósað happi. Ég er búin á því! Af veikum mætti er ég að reyna að vinna fyrir mér. Ég brá á það ráð að fara að vinna í Noregi og líkar það ágætlega þó að ég vildi frekar vera á Íslandi. Launin eru hins vegar betri hér og ég þarf ekki að vinna alveg eins mikið og get vonandi borgað Áslaugu á þessu ári.

Í tengslum við málaferli sem framundan eru fékk ég að sjá í vetur ýmsa pappíra sem tengdust ákærunni um þjófnaðinn. Þar var fyrrum samstarfsfólk mitt hjá DA að gefa skýrslur hjá rannsóknarlögreglu. Það var ýmislegt ömurlegt sem þar kom fram en fólk var eflaust að reyna að bjarga eigin skinni, því hafi peningar horfið frá Hvammi, hefur einhver annar en ég tekið þá, svo mikið er víst! Sumt sem ég las í þessum pappírum var hrein og klár lygi, annað var persónulegs eðlis og kom því sem um var að ræða ekki við. Þetta var fólk sem ég hafði unnið með til margra ára og vissi ekki betur en samstarfið hefði gengið vel, þetta var fólk sem ég treysti og þetta var fólk sem ég hélt að treysti mér. Nú er staðan sú að stjórn Hvamms hefur höfðað skaðabótamál á hendur mér vegna þessara meintu "horfnu" peninga. Ég á að þeirra mati að bera ábyrgð á því að þeir hafi horfið af því ég var framkvæmdastjóri. Ég er neydd til að taka til varna fyrir héraðsómi og varð að ráða mér lögfræðing. Það kostar sitt og ég hef nú þegar fengið fyrsta reikninginn frá honum. Ég veit hins vegar ekkert hvernig ég á að fara að því að borga honum en segi eins og sannur Íslendingur "það hlýtur að reddast"!

Bankinn tók húsið mitt í nóvember 2013 (já bankinn, ekki Íbúðalánasjóður eins og oftast er). Þar fyrir utan hafði síðasti leigjandinn minn á Húsavík komið illa fram og fór úr húsinu án þess að borga uppsagnarfrest! Já það hjálpaðist margt að, en á þessum tímapunkti var mér eiginlega orðið sama um húsið og ég hafði ekki burði til að eltast við óheiðarlegan leigjandann sem segist hafa fengið upplýsingar um það hjá sýslumaninum á Húsavík að hann þyrfti ekki að greiða uppsagnarfrest af því það væri komin nauðungarsölubeiðni á húsið. Erfiðleikarnir hafa svo sannarlega haft áhrif á heilsu mína og almenna líðan. Í dag hef ég afskaplega lítil tengsl við Húsavík, ég á þar örfáa vini (hægt að telja þá á fingrum annarrar handar). Ég óska þess bara að þessu ljúki, að ég fái frið. Það verður hins vegar einhver bið á því. 

Það sem vakir fyrir mér með þessum skrifum er fyrst og fremst sjálfshjálp. Ég er ekki að leita eftir vorkunnsemi. Ég veit að ég fæ aldrei skýringu á því hvers vegna þetta hefur allt gerst en treysti því að mér sé ætlað að læra af þessu og þroskast sem manneskja. Það sem ég hins vegar skil ekki er þessi meðvirkni og eineltiskúltúr sem þrífst á Húsavík. Ég mun aldrei skilja það og mig langar að biðja ykkur kæru Húsvíkingar og aðrir Þingeyingar að gera hluta af orðum Bibba (Snæbjarnar Ragnarssonar) að ykkar og koma þessum skilaboðum til þeirra sem ráða: "Hættið að eyðileggja samfélagið með þröngsýni, frekju, valdníðslu og fávitagangi. Þið eruð markvisst að hrekja frá ykkur fólk og skerða mannlíf og menningu" (Snæbjörn Ragnarsson, FB, 13. apríl 2014).

 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Maður þarf að vera við öllu búinn þegar þessi dýrategund maðurinn er annarsvegar, segi bara við þessa konu: láttu fólk aldrei koma þér óvart og leggðu allt í að byggja upp baráttuþrek.

Jón Sigurður Norðkvist (IP-tala skráð) 15.4.2014 kl. 19:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband