Fermingargjöfin - sönn saga.

Árið var 2006 - táningsstúlka að fermast í litlum bæ á Íslandi. Auðvitað var hún spennt og dagurinn í alla staði dásamlegur. Hún fékk þverflautu í fermingargjöf frá foreldrum sínum, þverflautu sem var dásamlega falleg. Hún var svo falleg að hún var notuð sem skraut á veisluborðið þar sem hægt var að dást að henni.

Stúlkan hélt áfram námi sínu í tónlistarskóla bæjarins í tvö ár eftir ferminguna en hætti svo náminu eftir það ýmissa hluta vegna. Þverflautunni var pakkað niður í töskuna sem fylgdi henni en af og til tekin upp, pússuð og blásið í hana.

Haustið 2011 fékk ung stúlka flautuna lánaða í trausti þess að hún færi vel með hana. Árin líða og vorið 2014 er móðir stúlkunnar sem fékk flautuna lánaða, beðin um að skila henni en hún sagðist þá vilja kaupa flautuna. Eigandinn vildi hins vegar ekki selja hana þannig að úr varð að flautunni yrði skilað þegar skóla lyki í vor.

Sumarið leið og ekki var flautunni skilað. Það var síðan síðla sumars að móðir eigandans fór að ganga eftir því að henni yrði skilað og föstudag einn í ágúst sl kom flautan í hús eða það leit þannig út. Kassinn sem flautan átti að vera í var hins vegar bæði brotinn, tómur og með bilaða læsingu! Haft var samband við móður lánþegans og hún látin vita að flautukassinn hefði verið bæði tómur og skemmdur. Liðu nú enn einir 14 dagar þar til flautan var send og þegar móðir eigandans bar hana augum fékk hún áfall.

Flautan var bæði skemmd og illa útlítandi.

Í munnstykkinu voru 5 brot eins og hún hefði verið rekin utan í. Tvö af þessum fimm brotum er ekki hægt að laga. Flautan hafði ekki verið smurð og mjög var fallið á hana, auk þess sem á henni voru ljótir ryðblettir. (ryðblettir koma á þverflautur ef þær eru ekki þurrkaðar eftir að blásið hefur verið í þær). Móðir eigandans hafði samband við móður lánþegans og sagði að huggulegt hefði nú verið ef þær hefðu látið vita af þessum skemmdum. Móðir lánþegans ítrekar þá að hún vilji kaupa flautuna og eigandinn samþykkti að selja hana enda ekki spennandi fyrir hana að eiga hljóðfærið svona útleikið. 

Í kjölfarið er farið í það að finna verð og til þess var farið í verslunina sem flautan var keypt í. Þar voru menn afar hissa á útliti og meðferð flautunnar og spurðu hvers vegna hún hefði verið lánuð. Það var af góðsemi einni saman og vegna þess að eigandinn vissi ekki betur en að lánþeginn færi vel með hlutina sína.

Verð var gefið í flautuna og sent móður lánþegans. Engin viðbrögð bárust af þeim vígstöðvum og líðu dagarnir. Það var svo ekki fyrr en móðir eigandans sendi tölvupóst og sagðist senda flautuna ef ekkert heyrðist frá þeim. Þá stóð ekki á svarinu; "við ætlum ekki að kaupa þessa flautu"! Þá var þetta fólk sem um ræðir búið að hafa samband við lögfræðing og sagði að ef stúlkan færi fram á skaðabætur yrði hún að sanna að lánþeginn hefði skemmt hljóðfærið. Jafnframt var móður eigandans tilkynnt að flautan hefði ekki verið í fullkomnu lagi þegar hún var lánuð en aldrei hafði verið á það minnst fyrr (enda flautan í fullkomnu lagi). Enginn hafði hins vegar nefnt skaðabætur og móðir lánþegans hafði ítrekað óskað eftir því að fá að kaupa flautuna. Það var nú hins vegar breytt eins og að ofan greinir. 

Eftir situr ung kona með illa farna þverflautu sem hefur tilfinningalegt gildi fyrir hana og þeir sem eiga "heiðurinn" af skemmdunum vilja svo ekki kannast við það.  

Skilaboðin mín til ykkar sem lesið þetta: EKKI LÁNA HLJÓÐFÆRIN YKKAR NEMA HAFA TRYGGINGU FYRIR ÞVÍ AÐ ÞAU VERÐI BÆTT EF ÞAU SKEMMAST! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband