Hvernig er lífið eftir mannorðsmorð?
6.9.2014 | 14:57
Nú er kominn september og ég er stödd á Íslandi til þess að tæma íbúðina sem við mæðgur höfum leigt síðustu 2 og hálft ár. Það er mikil sorg fólgin í því að rífa upp heimili sitt og selja megnið af því sem maður á og setja afganginn í geymslu um óákveðinn tíma. Ég verð semsagt heimilislaus eftir 20. september þökk sé fyrrverandi stjórn Hvamms, heimilis aldraðra á Húsavík. Málaferlunum er lokið með mínum sigri en það er ekki samasemmerki milli þess og þess að mannorð mitt hafi verið hreinsað. Aldeilis ekki! Auðvitað var það mikill léttir að vinna skaðabótamálið sem Hvammur höfðaði gegn mér......en ég hef ekki fengið neina afsökun frá fyrrverandi stjórn Hvamms fyrir það sem hún gerði mér. Og það var nú ekki svo lítið.....
Ég hef heldur ekki fengið afsökun frá forstjóra HÞ en hann skrifaði ljótan nýárspistil hvar hann kallaði mig margsinnis þjóf. Ég sendi bréf til ráðuneytis heilbrigðismála hvar ég kvartaði undan þessum skrifum forstjórans og hann fékk bréf frá því ágæta ráðuneyti þar sem honum var tilkynnt að hann hefði brotið meðalhófsreglu með því að blanda mínu nafni inn í þann pistil, Hann hefur líklega passað að enginn fengi að heyra af því bréfi hvað þá sjá það og líklega hefur ráðuneytið skrifað honum það bréf til málamynda því nýjustu fréttir segja mér að hann verði fyrsti forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. Þannig eru menn verðlaunaðir í íslensku stjórnmálastarfi, skítt með eina vesæla hjúkku! Tveir einstaklingar sem tóku þátt í aðförinni gegn mér sitja líka ennþá í stjórn Hvamms. Er þetta eðlilegt?
Það er ekki þannig að allt sé bara í lukkunnar velstandi þó að ég hafi unnið skaðabótamálið. Það er ekki þannig að brotunum sé púslað saman á einni kvöldstund og allir séu sáttir. Ég er í molum eftir allt sem á undan er gengið og þetta hefur gengið svo nærri mér að óhætt er að segja að ég búi við skert lífsgæði eftir það - þeim tókst líklega það sem þau ætluðu sér, þau beygðu mig svo rækilega að ekki er víst að ég geti staðið upprétt aftur. Mér finnst skrýtið að fólk sem velst til forystu á leiksviði stjórnmálanna geti hagað sér að vild, framið mannorðsmorð og eytt og spreðað peningum án þess að þurfa að svara fyrir það á nokkurn hátt.
Það eru allir orðnir hundleiðir á "þessum málum" mínum og Hvamms......ég líka! Ég reikna hins vegar með að flestir séu sammála því að maður verði að geta lifað í sæmilegri sátt við sjálfan sig og þær ákvarðanir sem maður tekur og ég finn að ég er ekki sátt! Ég er að vísu sátt við mína eigin frammistöðu og skynsemi en vil líka að þeir sem á mér hafa brotið gjaldi fyrir það. Það er hreinlega spurning að taka slaginn áfram og höfða mál fyrir rangar sakargiftir og meiðyrðamál..........ja, nema ég fái opinbera afsökun og miskabætur frá fyrrverandi stjórn Hvamms og Jóni Helga, svona í ljósi þess dóms sem kveðinn var upp þann 10. júlí sl.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.