Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010
Öldrunarþjónustan á Íslandi!
24.4.2010 | 14:36
Góðan og blessaðan daginn og gleðilegt sumar kæru vinir...
Eins og þeir vita sem þekkja mig, þá er ég starfandi í íslensku öldrunarþjónustunni, en hún er ekkert lík íslensku utanríkisþjónustunni! Íslenskir stjórnmálamenn og -konur virðast ekki hafa nokkurn einasta áhuga á þessum málaflokki og það sést á öllu sem að honum snýr. Málefni aldraðra taka að vísu til sín heilmikla peninga úr ríkiskassanum á hverju ári, en hvað með það? Okkur ber skylda til þess að sjá til þess að öldungar þessa lands lifi við þokkaleg kjör í það minnsta. Það eru ekki margir dagar síðan fyrrverandi sjúkraliði afhjúpaði fátækt sína í fjölmiðlum, en ráðamönnum virðist vera nákvæmlega sama og viðbrögðin voru lítil sem engin.
Því er nú einu sinni þannig farið að öldrunarþjónustan á Íslandi býr við mikinn skort! Þessi þjónusta, sérstaklega á landsbyggðinni, hefur verið undir hælnum á ráðamönnum í áranna rás og fékk ekki að taka þátt í góðærinu á nokkurn hátt. Stjórnendum var skipað að skera niður, spara og varla mátti veita nokkra þjónustu. Eftir bankahrunið hefur enn verið hert að þessari þjónustu og nú er málum þannig komið að sums staðar er ekki einu sinni verið að veita þá þjónustu sem bundin er í lög!
Á íslenskum öldrunarstofnunum er víðast hvar boðið upp á dvalarrými og hjúkrunarrými, auk dagþjálfunar fyrir þá eldri borgara sem enn búa heima. Á Húsavík þar sem ég þekki best til, er eitt dvalar- og hjúkrunarheimili, Hvammur, og hjúkrunardeild fyrir aldraða á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Ráðuneyti félagsmála og þar með Árni Páll Árnason hafa með þennan málaflokk að gera og nú er stíft skorið niður. Í Hvammi á að skera niður um 5 dvalarrými án þess að hjúkrunarrými komi í staðinn. Þetta á að gera þrátt fyrir það að ráðuneytið hafi gefið það út að á þessu þjónustusvæði vanti hjúkrunarrými, og þrátt fyrir það að í Hvammi bíða 10 einstaklingar eftir því að komast úr dvalarrými í hjúkrunarrými! Fyrir þá sem ekki þekkja muninn á þessum tveimur tegundum rýma, þá greiðir ríkið meira fyrir hjúkrunarrými en dvalarrými og þeir sem bíða eftir að komast í hjúkrunarrými eru í raun að fá þá þjónustu sem þeir þurfa á dvalarrýmisgjaldi! Semsagt; ríkið græðir og stofnanirnar tapa og eru reknar með halla ár eftir ár! þetta er að sjálfsögðu óviðunandi en hvað á að gera?
Ég skrifaði bréf til allra þingmanna kjördæmisins og bað þá liðsinnis í þessari baráttu en enginn þeirra hefur enn látið svo lítið að svara bréfinu frá mér! Viljum við hafa þetta svona?
Ég segi NEI og óska eftir úrbótum!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)