Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012

Lokun líknardeildar aldraðra á Landakoti svartur blettur á íslensku "velferðarkerfi" fordóma og vanþekkingar!

Mánudagurinn 6. febrúar 2012 er svartur dagur í mínum huga. Þá var líknardeild aldraðra á Landakoti (L5) lokað eftir ríflega 10 ára farsælt starf. Ástæðan? Í mínum huga (og margra annarra) er ástæðan fyrst og fremst áhugaleysi og fordómar í garð aldraðra fjölveikra Íslendinga, sem eru  með ólæknandi sjúkdóma. Fordómar í garð einstaklinga sem betur fer gátu  leitað á líknardeild aldraðra á Landakoti þar til í gær. Það er algengur misskilningur að allir sem leggist á líknardeild látist þar og þar með sé slík deild eingöngu biðsalur dauðans. Hluti sjúklinganna fer heim aftur eða vistast á hjúkrunarheimili. Á líknardeildinni á Landakoti var unnið þrekvirki í þágu þessa sjúklingahóps frá því deildin var opnuð þann 26. október 2001 og þar til í gær. Það var afmælisgjöf yfirstjórnar Landspítala til deildarinnar sl haust að tilkynna um fyrirhugaða lokun hennar. Þokkaleg afmælisgjöf það eða hitt þó heldur!  Þrátt fyrir mikla baráttu starfsmanna, sjúklinga, hollvina deildarinnar og umfjöllun Stöðvar 2 um málið tókst ekki að fá þessari ákvörðun haggað.
 
Þrekvirki það sem ég nefndi hér að ofan að hefði verið unnið á deildinni á Landakoti er fólgið í því fyrst og fremst að þessum sjúklingahópi var gert hátt undir höfði á þann veg að til sóma var. Þarna safnaðist mikil sérþekking og fagmennska sem var til fyrirmyndar. Við lokun deildarinnar mun hluti þessarar sérþekkingar glatast! Hvers vegna? Einfaldlega vegna þess að starfsmannahópurinn tvístrast og sérhæfingin mun ekki nýtast á sama hátt verandi hér og þar!
 
Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að verða starfsmaður líknardeildarinnar á Landakoti sl haust. Ég segi bara að það var mikil heppni mér til handa því sú samkennd sem einkenndi starfsemi deildarinnar var einstök! Þarna störfuðu hugur og hönd svo sannarlega saman. Þakklæti sjúklinganna og aðstandenda þeirra var einstakt. Það kann að hljóma undarlega í eyrum einhverra að fólki skuli hafa fundist það hólpið ef það komst inn á deildina. En þannig var það nú samt í mörgum tilfellum. Það var nefnilega þannig að sumir komu aftur og aftur. Ekki vegna þess að þá langaði til þess, heldur vegna þess að á deildinni fengu sjúklingar þá þjónustu sem þeir þurftu á að halda þegar þeir þurftu á henni að halda!
 
Hvað verður um þennan sjúklingahóp sem áður lagðist inn á líknardeildina á Landakoti? Það er nú það! Þessum hópi eru ætluð 5 rúm á sameinaðri líknardeild í Kópavogi og það eitt og sér þýðir fækkun sem nemur 4 rúmum. Hvað þýðir það í raun? Það þýðir einfaldlega að þeir öldruðu einstaklinga sem ekki geta lagst inn á líknardeildina í Kópavogi en þurfa á sjúkrahússþjónustu að halda, munu þurfa að leggjast inn á hinar og þessar bráðadeildir Landspítala og er það mjög miður. Það er ekki miður vegna þess að á bráðadeildum spítalans sé óhæft starfsfólk, heldur vegna þess að þar munu sjúklingarnir (aldraðir fjölveikir einstaklingar með ólæknandi sjúkdóma!!) ekki fá þá sérhæfðu þjónustu sem þeir þurfa á að halda til þess að geta haldið í lífsgæði sem okkur hinum finnast sjálfsögð. Líka vegna þess að því miður eru heilmiklir fordómar á Íslandi gagnvart öldruðum. Fordómar sem byggjast á vanþekkingu og virðingarleysi gagnvart þeirri kynslóð Íslendinga sem við eigum það að þakka að hafa komið okkur út úr torfkofunum með þrotlausum dugnaði og þrá eftir betra lífi. Eins og kollegi minn í hjúkrun sagði í vetur: "Það er nefnilega ekki "sexý" að verða gamall á Íslandi í dag!"
 
Ég vil ekki hafa þetta svona og það veit ég að fæstir vilja, því flest eigum við eftir að eldast og mögulega þurfa á líknarþjónustu að halda þegar að ævikvöldinu kemur. Ég vil helst hafa ævikvöldið mitt áhyggjulaust en eins og staðan er í dag er ekki útlit fyrir að það verði þannig. Þó svo heppilega kunni að vilja til að ég þurfi ekki á líknarþjónustu að halda er ljóst að lífeyrissjóðurinn minn verður orðinn tómur þegar ég hætti að vinna!
 
Að lokum vil ég votta Íslendingum öllum samúð mína vegna andláts líknardeildar aldraðra á Landakoti og um leið lýsa þeirri skoðun minni að yfirstjórn Landspítala og ólánsríkisstjórn landsins eru óhæfar sem slíkar og ættu að mínu mati að leita á önnur mið í atvinnuleit!

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband