Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012

Dómur héraðsdóms norðurlands eystra í máli nr E - 168/2011

D Ó M U R
16. ágúst 2012

Mál nr. E-168/2011:
Stefnandi: Soffía Anna Steinarsdóttir
(Jón Sigurðsson hrl.)

Stefndi: Dvalarheimili aldraðra Húsavík
(Hilmar Gunnlaugsson hrl.)

Dómari: Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari

D Ó M U R
Héraðsdóms Norðurlands eystra fimmtudaginn 16. ágúst 2012 í máli nr. E-168/2011:
Soffía Anna Steinarsdóttir
(Jón Sigurðsson hrl.)
gegn
Dvalarheimili aldraðra Húsavík
(Hilmar Gunnlaugsson hrl.)

Mál þetta var dómtekið 30. mars sl., en endurupptekið og dómtekið á ný þann 21. júní sl. Það var höfðað 2. september 2011. Gagnsök var höfðuð þann 27. október 2011, en felld niður um annað en málskostnað þann 24. nóvember 2011.
Stefnandi er Soffía Anna Steinarsdóttir, Hrísmóum 11, Garðabæ. Stefnda er Dvalar¬heimili aldraðra Húsavík, Vallholtsvegi 15, Húsavík.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmt til að greiða sér 24.533.972 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 16. apríl 2011 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.
Stefnda krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar. Þá krefst stefnda máls¬kostnaðar í gagnsök. Krefst stefnandi þess að hann falli niður.

I.
Stefnandi er hjúkrunarfræðingur að mennt. Hún var ráðin framkvæmdastjóri stefnda árið 2002. Í september 2004 óskaði hún bréflega eftir endurskoðun á starfs-samningi, sem yrði miðuð við 1. júní 2004. Tók hún fram að þegar hún hefði verið ráðin í öndverðu hefði verið ljóst að ekki væri verið að ráða hjúkrunarfræðing, en hún hefði tekið að sér að sinna þeim hjúkrunarþætti sem Heilbrigðisstofnun Þingeyinga hefði sinnt fram að því. Sá þáttur hefði aukist með tilkomu fjögurra hjúkrunarrýma og tæki nú meiri tíma en áður, auk þess sem honum fylgdi aukin skráningarvinna. Lét hún meðal annars í ljós ósk um að föst mánaðarleg yfirvinna yrði sett inn og gat þess að töluvert væri um útköll utan dagvinnutíma. Lét hún fylgja lista yfir útköll frá janúar 2003 til ágúst 2004, sundurliðað eftir mánuðum, sem hljóðaði um samtals 432 símtöl og 136 útköll utan dagvinnutíma.
Nýr samningur stefnanda og stjórnar stefnda er dagsettur 1. júní 2004. Þar kemur fram í 1. grein að stefnandi sé framkvæmdastjóri stefnda. Starfs- og ábyrgðarsviði framkvæmdastjóra er þannig lýst í 2. gr., að hann stjórni daglegum rekstri og skuli í þeim efnum fara eftir stefnu og fyrirmælum stjórnar og bera ábyrgð gagnvart henni, sé skylt að hlíta öllum fyrirmælum hennar og að ráða ráðum sínum við hana um allar meiriháttar ákvarðanir. Skuli hann skipuleggja starfsemi stefnda á öllu starfssvæði þess með það fyrir augum að reksturinn verði sem hagkvæmastur. Framkvæmdastjóri ráði fólk til starfa, en skuli hafa samráð við stjórn um ráðningu starfsmanna í stjórn-unarstörf. Hann segi starfsfólki upp og hafi umsjón með launamálum, skipuleggi og stjórni allri þjónustustarfsemi á vegum stefnda.
Þá kemur fram í þessari grein auk annars að framkvæmdastjóri leggi fyrir stjórn rökstuddar tillögur að fjárhagsáætlun, sem skuli vera í samræmi við samþykktir og fram¬kvæmdaáætlun.
Þá segir að framkvæmdastjóri skuli gæta hagsmuna stefnda í hvívetna og sé sjálf-kjörinn málsvari stefnda, án þess að sérstakt umboð þurfi. Hann skuli stunda störf af trú¬mennsku og hagsýni. Honum sé ekki heimilt að reka fyrirtæki fyrir sjálfan sig eða neina aðra atvinnugrein samhliða starfi sínu, nema með heimild stjórnar. Hann megi engin laun eða önnur hlunnindi taka sjálfum sér til handa nema eftir þessum samningi.
Í 3. gr. segir síðan að fastur vinnutími sé ekki skilgreindur, en miðist við að fram-kvæmda¬stjóri sinni því hlutverki sem í starfinu felist á sem bestan hátt.
Í 4. gr. er að finna ákvæði um föst mánaðarlaun, sem skuli fylgja breytingum á launum samkvæmt kjarasamningi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fjármála-ráðherra, eins og hann sé á hverjum tíma. Kemur einnig fram að um orlof og önnur al-menn réttindi fari eftir sama samningi.
Annar hjúkrunarfræðingur, Helena Jónsdóttir, mun hafa byrjað störf hjá stefnda árið 2007. Í málinu liggur frammi samningur hennar og stefnda, ásamt starfslýsingu, með gildistíma frá 1. desember 2008, þar sem fram kemur að hún sé hjúkrunarstjóri í Hvammi, heimili aldraðra.
Fram kemur í tveimur fundargerðum stefnda í desember 2009 að bakvaktir hjúkrunar¬fræð¬inga hafi verið til skoðunar, en það ekki reifað nánar. Segir í hinni síðari um laun framkvæmdastjóra/hjúkrunarfræðinga vegna bakvakta að ákveðið hafi verið að formaður stjórnar færi yfir þessi mál með framkvæmdastjóra.
Þann 1. janúar 2011 sendi stefnandi stjórnarformanni stefnda tölvubréf, þar sem hún upplýsti að stefnandi og Helena hefðu haft samband við stéttarfélag sitt til að fá álit á því hvernig staðið væri að greiðslum til hjúkrunarfræðinga Hvamms fyrir bak-vaktir og útköll. Væri skýlaust brot á kjarasamningum að greiða ekki fyrir bakvaktir og útköll. Hjá hvorugri hefðu bakvaktir verið skilgreindar eða settar í samninga. Þær hefðu samt sem áður sinnt þeim án þess að fá greitt nema að hluta. Hefði stefnandi barist fyrir því síðastliðin ár að þær fengju greitt. Hún hefði látlaust verið á vöktum, allan sólarhringinn árið um kring, frá 1. ágúst 2002 fram á mitt ár 2008, að örfáum vikum í leyfum undanskildum. Eftir að Helena hefði komið hefðu þær skipt vöktunum með sér og Helena fengið greitt fyrir útköll, svo og stefnandi fyrir útköll í næstliðnu sumarleyfi Helenu. Hún hefði ítrekað tekið þetta upp á stjórnarfundum, en alltaf verið vísað frá. Frá og með 1. janúar 2011 séu hjúkrunarrými orðin 22 og ekki lengur stætt á að hafa ekki bakvaktir á stofnuninni. Boðaði stefnandi að málið yrði sett á dagskrá næsta stjórnarfundar. Samkvæmt fundargerð segir um þann dagskrárlið: „Lagt fram til kynningar. Frestað til næsta fundar.“ Mun þarna hafa verið um að ræða útreikning stefnanda, sem gerði ráð fyrir tæpum 10 milljóna króna kostnaði í eitt ár vegna bakvakta við stofnunina. Á næsta fundi, 2. febrúar 2011, var bókað að stjórn hafnaði tillögum að bakvöktum hjúkrunarfræðinga, sem lagðar hefðu verið fram á síðasta fundi og framkvæmdastjóra væri falið að koma með tillögur að breytingum. Átti stefnandi í framhaldinu samskipti við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Stefnandi sendi síðan stjórnarmönnum stefnda tölvubréf þann 12. mars 2011 og kvaðst, í framhaldi af því að forsvarsmenn Heilbrigðisstofnunarinnar hefðu boðist til að sinna nætur¬út¬köll¬um í Hvammi fyrir tvær milljónir króna á ári, hafa talað við Helenu og hún lagt til að hjúkrunarfræðingum í Hvammi yrði boðið að taka þetta að sér fyrir sömu fjárhæð. Kvaðst stefnandi telja þetta góða lausn og óska eftir því við stjórn að hún tæki afstöðu til þessarar hugmyndar.
Hinn 16. mars 2011 ritaði Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga stefnda bréf og krafði stefnda f.h. stefnanda um 32.639.143 krónur fyrir bakvaktir næstliðin fjögur ár og dráttarvexti að auki, samtals 55.771.820 krónur. Leitaði stefnda til lögmanns og ritaði hann bréf þar sem kröfunni var hafnað.
Stefnanda var sagt upp störfum 30. mars 2011. Ágreiningur um lögmæti upp-sagnar¬innar og starfslok leystist með samkomulagi um önnur atriði en greiðslur fyrir bakvaktir, sem deilt er um í þessu máli.

II.
Stefnandi byggir á því að hún eigi samningsbundna kröfu á hendur stefnda um greiðslu fyrir bakvaktir sem hún hafi sinnt í starfi sínu hjá stefnda. Hafi verið um bakvaktir að ræða þegar stefnandi hafi ekki verið við störf hjá stefnda, en reiðubúin að sinna útkalli. Séu bakvaktakröfur stefnanda í samræmi við ákvæði kjarasamnings sem stefnandi hafi fallið undir, sbr. gr. 2.5.1., 1.6.2. og 2.5.4. í kjarasamningi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og íslenska ríkisins. Ákvæði kjarasamnings feli í sér lágmarkskjör, sem vinnuveitanda beri að virða. Geti stefnda ekki vikið sér undan skyldu til að efna samningsbundin kjör sem stefnanda beri að fá greitt til samræmis við, enda hafi stefnda í engu efnt skyldu til greiðslna fyrir bakvaktir. Hafi stefnandi sinnt slíkum vöktum á því tímabili sem dómkrafa nái til. Hafi verið hjúkrunarrými á dvalarheimili stefnda frá árinu 2004. Hafi því m.a. verið verkefni stefnda að sinna þjónustu við vistmenn, sem hafi krafist þess að hjúkrunarfræðingur væri á vakt allan sólarhringinn. Hafi stefnandi því orðið að vera á bakvakt fyrir utan hefðbundinn vinnutíma, reiðubúin að vera kölluð út til starfa ef á hjúkrunarfræðingi þyrfti að halda. Hafi stefnda verið þetta ljóst. Þar sem stefnandi hafi einnig gegnt störfum hjúkr¬unar-fræðings, hafi verið um það samið, sbr. ákvæði ráðningarsamnings, að um laun hennar og réttindi skyldi fara eftir kjarasamningi Fíh og ríkisins. Stefnandi hafi ítrekað kröfur um bakvaktir margoft við stjórn stefnda, en án þess að niðurstaða fengist fyrr en í febrúar 2011. Krafan hafi m.a. verið til umfjöllunar á fundi stjórnar stefnda 10. nóvember 2009, þar sem hafi komið fram að málið yrði skoðað. Einnig hafi það verið á dagskrá 9. desember 2009, þar sem hafi verið ákveðið að formaður stjórnar færi yfir málið með framkvæmdastjóranum.
Stefnandi kveðst vísa því á bug, sem haldið hafi verið fram af hálfu stefnda, að stefn¬andi hafi samið um hámarksgreiðslu launa og að launafjárhæð hafi falið í sér bak-vaktargreiðslu. Kveðst hún benda á að umsamin laun hafi tekið mið af því að hún gegndi störfum framkvæmdastjóra, sem almennt séð hljóti vegna stöðu og ábyrgðar að vera hærri en laun undirmanna á sama vinnustað. Þá hafi verið gert ráð fyrir því í ráðn-ingar¬samningi að réttindi hennar færu eftir tilvísuðum kjarasamningi. Til þess verði einnig að líta í þessu sambandi að stefnandi hafi unnið á löngum köflum yfir 18 tíma sólarhrings. Hafi hún eðli máls samkvæmt verið bundin við viðveru í sveitar¬félaginu meðan á bakvöktum stóð. Sé allsendis óeðlilegt að líta svo á að stefnanda hafi ekki borið að greiða fyrir þá bakvaktartíma, enda hafi stefnandi verið til taks á sömu tímum ef útkall kæmi. Staðhæfingar stefnda varðandi umsamdar greiðslur séu ósann¬aðar, en álíta verði að sönnunarbyrði þar að lútandi hvílí á stefnda, enda verði að hafa í huga að um vinnuveitanda sé að ræða, sem hafi yfirburðastöðu gagnvart stefnanda sem launþega við samningsgerð. Hafi stefnda verið í lófa lagið að ganga frá ákvæði í samn-ingi til samræmis við það sem hann hafi síðar haldið fram. Það hafi hann hins vegar ekki gert. Allan vafa um efni ráðningarsamnings að þessu leyti beri að túlka stefn¬anda í hag samkvæmt viðurkenndum sjónarmiðum í vinnurétti. Þá athugist að framangreindar fullyrðingar stefnda séu beinlínis í andstöðu við það að sumarið 2010 hafi stefnda greitt stefnanda fyrir útköll utan hefðbundins vinnutíma, þ.e. greitt henni laun umfram hina reglubundnu fjárhæð. Hafi þær greiðslur fyrir útköll tekið mið af ákvæðum kjarasamnings. Telja verði að þessar greiðslur hafi falið í sér viðurkenningu stefnda á því að sú launafjárhæð sem sé tilgreind í ráðningarsamningi sé ekki há¬marks¬fjárhæð launa, heldur hafi þau getað verið breytileg eftir vinnuskyldu og greiðslum sem færu eftir einstökum ákvæðum kjarasamnings.
Stefnandi tekur fram að það athugist einnig að stjórn stefnda hafi að því er virðist ekki hreyft athugsemdum við það vakta- og vinnufyrirkomulag sem hafi tíðkast á stofn¬uninni meðan stefnandi hafi starfað þar og m.a. hafi engar athugasemdir verið gerðar við það að stefnandi sinnti bakvöktum, enda hafi slíkt vart verið stjórninni unnt, þar sem skylda hafi hvílt á henni að halda úti þjónustu hjúkrunarfræðings allan sólarhringinn vegna þeirra hjúkrunarrýma sem á staðnum hafi verið. Deila aðila snúist því ekki um það hvort stefnandi hafi sinnt bakvöktum, heldur einungis því hvort stefnda hafi borið að greiða fyrir þær bakvaktir sem stefnda hafi sinnt. Þá kveðst stefn-andi byggja á því að greiðslur fyrir bakvaktir og aðrar greiðslur samkvæmt kjara¬samn-ingi til annars hjúkrunarfræðings í starfi hjá stefnda feli í sér viðurkenningu stefnanda á því að hjúkrunarfræðingum á vinnustaðnum, og þar með stefnanda, hafi borið að fá greiðslur fyrir þær bakvaktir sem þær hafi sinnt, enda hafi stefnandi og hinn hjúkrun¬ar-fræðingurinn skipt með sér bakvöktum.
Þá kveðst stefnandi byggja kröfur sínar á því að stefnda hafi, með því að greiða stefn¬anda ekki laun fyrir bakvaktir en greiða á sama tíma hinum hjúkrunarfræðingnum á vinnu¬staðnum fyrir slíkar vaktir, beitt ólögmætri mismunun gagnvart stefnanda og fari hún gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sé ekki vafi á að þau lög nái til stefnda, sem sé félag eða stofnun í eigu nokkurra sveitarfélaga og þar með beri stefnda að gæta þeirra laga að þessu leyti, sbr. til hliðsjónar 1. gr. laga nr. 37/1993. Því til stuðnings megi einnig vísa til þess að stefnandi hafi fallið undir kjarasamning hjúkrunarfræðinga sem starfi hjá íslenska ríkinu.
Stefnandi vísar til stuðnings útreikningi dómkröfunnar til sundurliðaðs út¬reiknings Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sem liggur frammi í málinu. Sé hann í samræmi við ákvæði í gr. 1.6.2, 2.5.1 og 2.5.4 í kjarasamningi sem hún hafi fallið undir. Sé um að ræða kröfu vegna bakvaktaálags, orlofs og bakvaktafrís, svo sem nánar sé sundurliðað í útreikningnum. Tímabil bakvakta miðist við einn mánuð í senn og gjalddagi sé síðasti dagur sama mánaðar. Miðist dómkrafan við tímabilið frá 30. september 2007 til febrúar 2011, þegar stefnandi hafi sinnt síðustu bakvöktum fyrir starfslok hjá stefnda. Þá vísist enn fremur til stuðnings útreikningi til vinnuskýrslna stefnanda, þar sem hún hafi skráð niður bakvaktir sínar á umræddu tímabili.
Auk framangreinds vísar stefnandi til almennra reglna samninga-, kröfu- og vinnu-réttar, stjórnslýslulaga nr. 37/1993 og almennra sjónarmiða og reglna í stjórn¬sýslu- og sveitarstjórnarrétti. Þá vísar hún til kjarasamnings Félags íslenskra hjúkr¬unar¬fræðinga við fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins, frá árinu 2005, með síðari breyt¬ingum. Dráttarvaxtakröfu sína miðar hún við það að 16. apríl 2011 hafi verið liðinn mánuður frá því að hún hafi sannanlega krafið stefnda um greiðslu og lagt fram nauð¬synlegar upplýsingar til að meta kröfuna, sbr. ákvæði 1. mgr. 6. gr. og 3. mgr. 5. gr. og 9. gr. laga nr. 38/2001.

III.
Stefnda tekur fram um málavexti að stefnandi hafi verið ráðin framkvæmdastjóri árið 2002 og hafi þá verið nokkur umræða um há laun hennar, en röksemdir fyrir þeim hafi verið að þar sem hún væri hjúkrunarfræðingur hafi verið samið við hana um að sinna ákveðnum störfum sem slík og að þau rúmuðust í starfslýsingu hennar og laun-um. Stefnandi hafi alla tíð haft mikinn metnað fyrir uppbyggingu á starfsemi stefnda, en ekki gætt þess að tryggja samfellu í uppbyggingu á starfsemi og þjónustuframboði stefnda og tekjum stofnunarinnar. Samhliða þessari uppbyggingu hafi hún óskað eftir endur¬skoðun á kjörum sínum, enda hafi verið rætt um slíka endurskoðun í upphafi. Niðurstaðan hafi birst í ráðningarsamningnum frá 2004, sem sé óumdeilt að hafi gilt út ráðningar¬samband aðila. Í þeim viðræðum hafi stefnandi óskað eftir aukagreiðslum umfram heildarlaun og þar á meðal fyrir bakvaktir, en stjórnin hafi hafnað því. Hafi sérstakt ákvæði verið sett í kjarasamninginn af þeim sökum, um að ekki kæmi til annarra greiðslna en umsamdra heildarlauna. Vera megi að stefnandi hafi verið ósátt við þau málalok, en hún hafi virt þau í áætlunum og launaútreikningum. Kveðst stefnda byggja á því að alþekkt sé að framkvæmdastjóri stofnunar eða fyrirtækis sé jafnan á föstum mánaðarlaunum, óháð vinnuframlagi, þótt skilgreint sé lágmarks vinnu¬framlag, nema um annað sé sérstaklega samið. Framkvæmdastjóri sé jafnan i þeirri stöðu að hafa endalaus verkefni og geta þannig skammtað sér laun, væri annað fyrirkomulag við lýði.
Stefnda kveðst mótmæla því að samkvæmt ráðningarsamningi aðila skyldi um rétt¬indi stefnanda farið eftir kjarasamningi Félags íslenskra hjúkurunarfræðinga og fjár-málaráðherra f.h. ríkisins. Tilvísun í ráðningarsamningi til þess kjarasamnings verði ekki túlkuð víðtækari en þar greini. Séu þar tilgreind tvö atriði, í fyrsta lagi að föst mánaðarlaun skyldu fylgja hlutfallslega breytingum á launum samkvæmt kjara¬samn-ingn¬um og um orlof og önnur almenn réttindi skyldi farið eftir kjarasamningnum, utan þess að stefnanda hafi verið tryggður réttur til 10 daga vetrarorlofs.
Stefnandi hafi tekið málið upp á stjórnarfundi árið 2009 og hafi formanni stjórnar verið falið að ræða við hana. Niðurstaðan hafi verið að ekki hafi verið orðið við kröfum hennar. Þá hafi, eins og áður, verið lagt til að hún yki samstarf við Heilbrigðis¬stofnun Þingeyinga, til að leysa álag á starfsmenn stefnda. Hafi stefnandi brugðist illa við slíkum hugmyndum og hafi málið fjarað út. Tekur stefnda fram að rekstur sinn hafi verið erfiður á þessum tíma og fjárhagsstaðan slæm. Stefnandi hafi borið ábyrgð á áætl¬anagerð og lagt áætlanir fyrir stjórnina til samþykktar. Í þeim hafi ekki verið gert ráð fyrir þeim kostnaði sem stefnandi höfði þetta mál út af, en um verulegar fjárhæðir sé að ræða, hvort sem þær séu settar í samhengi við heildarveltu stefnda á ári eða ekki.
Með ráðningu hjúkrunarfræðings til stefnda árið 2007 hafi verið mætt aukinni þörf á starfskröftum með þá fagmenntun. Hafi það verið stefnandi sem fram¬kvæmda¬stjóri sem hafi stjórnað því hvort og í hve miklum mæli sá starfsmaður sinnti bak¬vökt¬um. Ítrekað hafi verið óskað eftir því að stefnandi hefði samstarf við Heil¬brigðis¬stofn¬un Þingeyinga um þessi atriði og önnur sem hefðu getað minnkað kostnað stefnda og nýtt aðstöðu sem hafi verið til staðar hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga.
Stefnda tekur fram að greiðslur vegna bakvakta sumarið 2010 til stefnanda hafi verið í samræmi við sérstaka ákvörðun stjórnar um það vegna sumarleyfis annars hjúkr-unar¬fræðings. Stefnandi hafi sjálf annast útreikning launa hjá stofnuninni.
Stefnandi hafi kynnt fyrir stjórninni tillögur um það í ársbyrjun 2011 að greiddar yrðu 10 milljónir króna á ári fyrir bakvaktir við stofnunina og að hún sæi sjálf um a.m.k. hluta þeirra. Hafi henni þá verið falið að afla tilboðs frá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga um þessar bakvaktir. Það hafi borist og hljóðað um 2 milljónir króna á ári. Stjórn hafi í fyrstu talið að það væri vegna allra bakvakta, en síðar áttað sig á því að aðeins hefði verið boðið í næturvaktir, að beiðni stefnanda.
Eftir starfslok stefnanda hafi verið gerður samningur við Heilbrigðisstofnun Þing-eyinga um framkvæmdastjórn og fleira, í stað þess að ráða nýjan framkvæmdastjóra í stað stefnanda. Áður hefði stefnandi fengið tilboð þaðan í bakvaktir, eftir að stjórn hefði krafist þess. Sá samningur sem nú sé í gildi hljóði um að greiddar séu 600.000 krónur á mánuði fyrir aðkeypta þjónustu framkvæmdastjórnar og aukna bók¬halds-vinnu, miðað við þá sem stefnandi hafi innt af hendi.

IV.
Stefnda kveðst byggja á því að stefnandi eigi enga kröfu á hendur sér, enda hafi laun verið gerð upp að fullu við starfslok. Sé byggt á ráðningarsamningi aðila, þar sem hafi verið samið um fastlaunakerfi og tekið fram að fastur vinnutími væri ekki skil-greindur, en miðaðist við að framkvæmdastjóri sinnti því hlutverki sem í starfinu fælist á sem bestan hátt. Ákvæði um að framkvæmdastjórinn mætti engin laun eða hlunnindi taka sjálfum sér til handa nema eftir samningnum taki öll tvímæli af um það að stefnandi hafi ekki verið í stöðu til að skammta sjálfri sér aukatekjur. Sé byggt á meginreglum um skuldbindingargildi samninga.
Stefnda kveðst mótmæla því að leggja beri kjarasamning til grundvallar með þeim hætti sem stefnandi geri. Tilvisun kjarasamnings til ráðningarsamnings takmarkist við þau atriði sem þar séu tilgreind. Sé því sérstaklega mótmælt að komast eigi að gagn-stæðri niðurstöðu við eðlilega túlkun ráðningarsamnings, með tilvísun til kjara¬samn-ingsins, enda hafi stefnandi notið kjara sem hafi verið miklum mun betri en lág¬marks-kjör fyrir hjúkrunarfræðing á þessu svæði.
Stefnda kveður sér ómögulegt að fullyrða hvort og í hvaða mæli stefnandi hafi sinnt bakvöktum, þar sem hún hafi ekki hlutast til um að halda skráningu slíkra fram-laga til haga með eðlilegum hætti. Sé því mótmælt sem ósönnuðu að hún hafi innt slík störf af hendi, sem og staðhæfingu stefnanda um að ekki sé ágreiningur um þetta atriði. Hefði verið eðlilegt að stefnandi hlutaðist til um að stjórnarformaður hverju sinni áritaði slíkar skýrslur, jafnvel þótt ágreiningur væri um greiðsluskyldu, til að fá sönnun á umfangi slíkrar vinnu. Sé krafa stefnanda að þessu leyti ósönnuð og van¬reifuð. Beri þegar af þeirri ástæðu að fallast á sýknukröfu stefnda. Sé byggt á því að í ljósi hlutverks stefnanda sem æðsta starfsmanns stefnda, er hafi borið ábyrgð á dag¬legum rekstri, skipulagningu starfseminnar og yfirumsjón starfsmannamála, hafi það staðið stefnanda miklu nær en stjórnarmönnum stefnda að tryggja tilvist sannanlegra sam-tímagagna um meintar bakvaktir og útköll, sérstkalega þar sem stefnanda hafi ver¬ið ljóst eða mátt vera ljóst að af hálfu stjórnarmanna stefnda hafi ekki verið talið að hún ætti rétt á þessum greiðslum. Því verði stefnandi að bera hallann af skorti á sönn¬un fyrir þessum bakvöktum.
Stefnda tekur fram að það liggi fyrir að hjúkrunarfræðingur hafi verið ráðinn árið 2007 og sé byggt á því að sá starfsmaður hafi sinnt þeim bakvöktum sem hafi þurft að sinna. Þá kveðst stefnda byggja á því sú sértæka og afmarkaða ákvörðun stjórnar að greiða stefnanda fyrir bakvaktir sumarið 2010 í sumarleyfi þess hjúkrunarfræðings sem hafi sinnt þeim ella, geti engan veginn falið í sér viðurkenningu á frekari greiðslu-skyldu. Þvert á móti beri að líta á það sem staðfestingu þess að báðir aðilar hafi gert sér grein fyrir því á þessum tíma að slík greiðsla yrði ekki innt af hendi á grundvelli ráðningarsamnings, heldur hafi sérstaka ákvörðun þurft til þess.
Þá segir stefnda liggja fyrir að stefnandi hafi sjálf upplýst stjórn stefnda um það í tölvubréfi í janúar 2011, þegar þetta mál hafi fyrst verið til skoðunar í þeirri stjórn, að ekki væri til sérstök starfslýsing fyrir stefnanda, önnur en ráðningarsamningurinn, þar sem stjórn hefði hafnað því á sínum tíma að hafa hjúkrunarþáttinn inni. Sé byggt á því að þetta bréf sé sönnun þess að stefnanda hafi það verið mæta vel ljóst að stjórn stefnda hefði ekki talið stofnuninni skylt að greiða fyrir annað en samið hefði verið um og að hún hefði engar heimildir til þess að taka sér laun fyrir meira.
Stefnandi hafi sjálf annast launaútreikning stefnda eða borið ábyrgð á því hvernig slíkum útreikningi hefði verið háttað. Sé byggt á því að ástæða þess að hún hafi ekki reiknað sér bakvaktir í samræmi við þá kröfu sem þetta mál snúist um, hafi verið sú að stefnandi hafi gert sér grein fyrir því að þar með væri hún að taka sér laun umfram það sem hefði verið samið um.
Þá kveðst stefnda byggja á því, ef fallist verði á það að stefnandi hafi átt rétt til greiðslna fyrir bakvaktir, að slík krafa sé fallin niður fyrir tómlæti. Gildi þessi máls-ástæða sjálfstætt fyrir hvert ár um sig og hvern mánuð um sig. Krafa hafi fyrst borist frá stéttarfélagi stefnanda í ársbyrjun 2011 og þá hefði stefnandi hvorki hreyft við henni í tengslum við áætlanagerð eða ársreikningagerð vegna áranna frá 2007-2010 og áætlanagerð vegna ársins 2011. Verði að gera þá kröfu til stefnanda, að hún hefði átt að koma kröfu sinni á framfæri í hverjum mánuði, teldi hún laun vangoldin. Það hafi ekki verið gert, enda sé á því byggt að stefnandi hafi eins og stefnda talið slíkt óheim¬ilt og andstætt ráðningarsamningi aðila.
Ef talið verði að stefnandi eigi rétt til greiðslu vegna bakvakta á grundvelli ráðn-ingar¬samnings og kjarasamnings, sé byggt á því að stefnda eigi bótakröfu á stefnanda sem nemi þeirri fjárhæð og að hún geti komið til skuldajöfnuðar. Sé hér átt við það að stefnandi hafi haft ríka skyldu til að leita hagkvæmra lausna. Þrátt fyrir það hafi stefn-andi ekki sinnt ítrekuðum beiðnum um að hún leitaði eftir samstarfi við Heil¬brigðis-stofnun Þingeyinga og ákveðið, sé miðað við málatilbúnað hennar, frekar að úthluta sjálfri sér launuðum bakvöktum, án sérstakrar uppáskriftar og í andstöðu við fjárhags-áætlanir, sem hún hafi sjálf unnið og kynnt fyrir stjórn. Hún hafi sem framkvæmda-stjóri borið ábyrgð á daglegum rekstri og það sé í hróplegri mótsögn við slíka ábyrgð og ákvæði ráðningarsamnings hennar, að hún hafi með lögmætum hætti getað stofnað til skuldbindinga sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun stjórnar og að það hafi verið í hennar eigin þágu. Sérstaklega sé ámælisvert að stefnandi hafi gert stjórn tilboð upp á 10 milljónir króna í bakvaktir og ekki kannað að eigin frumkvæði hver yrði kostnaður við að leysa mál með öðrum hætti.
Þá kveðst stefnda byggja á því að verði talið að túlka beri ráðningarsamning aðila svo að stefnandi hafi átt rétt til sérstakra bakvaktagreiðslna, þá beri að víkja þeim hluta samningsins til hliðar með vísan til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Verði að telja það ósanngjarnt að gera stefnda það að sitja uppi með kostnað upp á tugi milljóna króna, þegar óumdeilt sé að stefndi hafi enga skyldu talið hvíla á sér til að greiða slíkan kostnað. Verði að hafa í huga stöðu aðila, en sé ráðningarsamningur þeirra túlk¬aður með þessum hætti, hafi stefnandi getað skammtað sér tekjur án þess að sinna samningsbundinni skyldu sinni til að leita hagstæðustu lausna.
Stefnda kveðst hafna því alfarið að fyrirkomulag á greiðslu bakvakta annarra starfsmanna, sem ákveðið hafi verið af hálfu stefnanda sem framkvæmdastjóri stefnda, geti með nokkrum hætti leitt til þess að talið verði að það hafi falið í sér brot á jafn-ræðisreglu stjórnsýslulaga gagnvart stefnanda. Sé vísað til þess að um fast¬launa¬samn-ing hafi verið að ræða og að verulegur launamunur hafi verið á stefnanda og öðrum starfs¬mönnum stofnunarinnar.


V.
Stefnandi gaf aðilaskýrslu fyrir dómi, svo og Hólmfríður Soffía Helgadóttir, stjórn¬ar¬formaður stefnda og Jón Helgi Björnsson, framkvæmdastjóri stefnda.
Þá gáfu vitnaskýrslur Helga Kristbjörg Sigurbjörnsdóttir snyrtifræðingur, Cecilie Björg Hjelvik Björgvinsdóttir, sviðstjóri kjara- og réttindasviðs Félags íslenskra hjúkr-unar¬fræðinga, Helena Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur, Pétur Helgi Pétursson, um¬sjón¬ar-maður fasteigna og tækja hjá stefnda, Guðrún María Valgeirsdóttir, sveitarstjóri, Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri, Áslaug Halldórsdóttir, hjúkrunarfræðingur, Tryggvi Jóhannsson og Steinþór Heiðarsson.
Stefnandi kvaðst hafa verið ráðin sem framkvæmdastjóri til að stjórna daglegum rekstri, en verið ráðin vegna þess að hún var hjúkrunarfræðingur. Störf sín hefðu einnig falist í að sinna vistmönnum, sem hefðu verið 46. Starfsmenn hefðu verið um 40. Hjúkrunarrými hefðu fyrst komið árið 2004. Þar með hefði hjúkrunarþjónusta þurft að vera allan sólarhringinn og þar með bakvakt. Á þessum tíma hefði hún ein sinnt bakvöktum. Hefði hún því alltaf þurft að vera reiðubúin að sinna útköllum eða fá einhvern fyrir sig ella. Hún hefði reynt frá árinu 2004 að fá að ráða hjúkrunarfræðing og það loks tekist árið 2007. Eftir það hefðu þær skipt með sér bakvöktum eftir því sem hentaði. Á árunum 2007-2011 hefði hún reynt að fá stjórn til að fallast á að greiða sér fyrir bakvaktirnar en ekki tekist. Hefði hún tekið málið upp á fundum, en stjórn ekki viljað fjalla mikið um það. Töluverðar mannabreytingar hefðu verið í stjórn. Sumarið 2010 hefði hún fengið greitt fyrir útköll, því hún hefði sagst ekki viljað sinna þessu meðan hinn hjúkrunarfræðingurinn, Helena Jónsdóttir, var í leyfi. Hún staðfesti skýrslur sínar um bakvaktir sem réttar og staðfesti að hafa skráð þær og unnið eftir bestu samvisku. Þær væru unnar eftir því sem þær Helena hefðu skipt með sér vöktum og þær gert þetta í sameiningu. Þetta hefði verið unnið mánaðarlega. Stjórn stefnda hefði ekki viljað hafa neitt inni í ráðningarsamningi um hjúkrun, þeim hefði bara fundist að hún ætti að sinna þessu. Hún hefði staðið bakvaktir, vegna þess að hún hefði orðið að gera það, hjúkrunarrýmum hefði fylgt skylda til að hafa hjúkrunar¬þjón-ustu allan sólarhringinn. Hefði stjórnin haft vanþekkingu að þessu leyti.
Fyrstu hjúkrunarrýmin hefðu verið þrjú eða fjögur. Árið 2008, að sig minnti, hefðu þau orðið 10 og í ársbyrjun 2011 fjölgað í 22. Fjölgun rýma hefði ráðist af aukinni þörf vistmanna fyrir hjúkrun. Þegar Helena Jónsdóttir hefði verið ráðin í árs¬lok 2007 hefði ekki verið samið sérstaklega um bakvaktir við hana, stefnandi hefði séð fyrir sér að hún myndi halda áfram að sinna þeim. Helena hefði um tíma fengið greitt fyrir bakvaktir þegar erfið veikindi voru, en ella útköll. Stefnandi hefði séð um launaútreikninga og ekki hefði verið starfandi sérstakur starfsmanna- eða fjár¬mála¬stjóri.
Stefnandi kvaðst ætíð hafa unnið allan dagvinnutíma og oft síðdegis og um helgar.
Hólmfríður Soffía Helgadóttir kvaðst í fyrstu, í maí 2010, hafa verið ráðin til að fara yfir fjárhagsstöðu stefnda, með tilliti til hugsanlegra úrbóta. Staðið hefði til að hún ynni þetta með stefnanda, en ekki hefði orðið af því, vegna leyfa hennar. Hún hefði sest í stjórn í júní 2010. Hún hefði komist að því að hjúkrunarrýmum þyrfti að fjölga um 10, miðað við ástand vistmanna og að stofnunin fengi greiðslur í samræmi við það. Hún hefði viðrað þetta á fundi í ráðuneyti ásamt stefnanda, svo og að gengið yrði til samstarfs við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, enda væri of mikið álag á stefnanda eins og aðstæður hefðu verið. Hólmfríður Soffía sagði að á fundi 3. janúar 2011 hefðu stefnandi og Helena Jónsdóttir sagt að taka yrði á bakvöktum og jafnframt að þær vildu ekki samstarf við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Hefði hún þá beðið um útreikninga á kostnaði vegna þessa. Stjórn hefði síðan ákveðið að fela stefnanda að leita tilboða í bakvaktir. Fyrst hefði komið tilboð í næturvaktir, tvær milljónir króna og síðan um fjórar milljónir, fyrir allar bakvaktir. Að lokum hefði verið samið við Heil-brigðis¬stofnunina um þessar vaktir. Tveir hjúkrunarfræðingar starfi nú hjá stefnda, auk þess sem Áslaug Halldórsdóttir, starfsmaður Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga, fari með hjúkrunarforstjórn. Hjúkrunarfræðingarnir sinni ekki bakvöktum, heldur sé þeim sinnt af Heilbrigðisstofnun Þingeyinga samkvæmt samningi.
Jón Helgi Björnsson kvaðst vera forstjóri Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga frá árinu 2007 og fara með framkvæmdastjórn stefnda samkvæmt samningi milli stofnan-anna frá í maí 2011. Hann kvað stefnanda hafa leitað eftir samstarfi í byrjun árs 2011, en hafa í desember árið áður hafa minnst á það við hana að stofnun hans væri reiðubúin til slíks. Hann staðfesti að hafa boðið að séð yrði um næturvaktir fyrir tvær milljónir króna á ári. Ekki hefði þá verið óskað eftir frekari vöktum. Tveir hjúkrunar¬fræðingar starfi nú hjá stefnda í 1,8 stöðugildi, en auk þess séu hjúkrunarfræðingar frá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga á kvöld- og helgarvöktum. Hjúkrunarfræðingar frá þeirri stofnun séu tiltækir ef kalla þurfi út til stefnda á næturnar. Tengibygging sé milli stofnan¬anna.
Vitnið Bergur Elías Ágústsson kvaðst hafa tekið sæti í stjórn stefnda árið 2009 og setið í eitt ár. Hann kvaðst hafa rætt við stefnanda, í samræmi við bókun á stjórnar-fundi. Niðurstaðan hefði verið að fylgja ákvörðunum fyrri stjórnar. Hann tók fram að það hefði verið rætt að ef þörf væri fyrir bakvaktir ætti að leysa það með öðrum hætti en að framkvæmdastjóri, dýrasti starfsmaðurinn, stæði þær. Spurður hvort vafi hefði verið um það hvort standa þyrfti bakvaktir kvað hann hafa verið talið að þetta hefði verið leyst á sínum tíma með því að ráða auka hjúkrunarfræðing.
Cecilía Björgvinsdóttir staðfesti útreikning á greiðslum fyrir bakvaktir, sem kröfur stefnanda grundvallast á. Kvaðst hún hafa farið yfir hvern mánuð fyrir sig og gert tilteknar leiðréttingar. Hún kvað hjúkrunarfræðinga á hjúkrunarheimilum ábyrga fyrir því að hjúkrun væri sinnt, með viðveru eða bakvöktum. Algengast væri á minni heimilum að greitt væri fyrir unnar bakvaktir og útköll. Í stöku tilfellum hefði þetta verið leyst með fastri yfirvinnu, en þá þyrfti að leita samþykkis stéttarfélags sam¬kvæmt ákvæði í kjarasamningi. Ekki hefði verið leitað slíks samþykkis af hálfu stefnda. Helena Jónsdóttir hefði aðeins fengið greitt fyrir útköll og það samræmdist ekki kjarasamningi, en Helena hefði ekki óskað aðstoðar stéttarfélagsins af þeim sökum.
Helena Jónsdóttir kvaðst hafa byrjað störf hjá stefnda 1. desember 2007. Hún lýsti hjúkrunarþjónustu þar svo, að hún fælist í allri hjúkrun og daglegri umönnun. Væri þetta sólarhringsþjónusta, en hjúkrunarfræðingur hefði ekki verið á staðnum allan sól-arhringinn. Hefði þetta verið leyst með því að þær stefnandi hefðu sinnt útköllum þegar þurft hefði. Hefði það verið meira á könnu stefnanda í öndverðu, en undir það síðasta meira á könnu vitnisins. Annars hefðu þær skipt þessu með sér. Kvað hún bakvaktaskýrslur stefnanda samræmast þessari skiptingu eftir því sem hún best fengi séð. Helena kvaðst ekki hafa fengið greitt fyrir bakvaktir, en fengið greitt fyrir útköll eftir því sem hún gerði grein fyrir þeim. Hún kvaðst hafa verið í samskiptum við stefn-anda um sín launamál. Hún kvað ekki hafa verið gert skriflegt bakvaktafyrirkomulag, þetta hefði verið munnlega ákveðið milli þeirra stefnanda.
Áslaug Halldórsdóttir er hjúkrunarforstjóri hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga frá árinu 2003. Hún kvað þá stofnun ekki geta neitað því að taka við sjúklingum ef þyrfti. Hún kvaðst nú vera yfirmaður hjúkrunarmála hjá stefnda samkvæmt samningi við Heil-brigðisstofnun Þingeyinga. Hún kvaðst einhvern tíma hafa orðið í eitt eða tvö skipti við beiðni stefnanda um að vera til taks ef kalla þyrfti út hjúkrunarfræðing vegna stefnda. Hún hefði þá fengið greitt fyrir útkall, en ekki sérstaklega fyrir bakvakt.
Vitnið Tryggvi Jóhannsson staðfesti að hafa undirritað ráðningarsamning við stefnanda. Hann hefði þá verið stjórnarformaður. Hann hefði setið í stjórn frá 2002-2006. Þegar stefnandi hefði verið ráðin í öndverðu hefði verið gert ráð fyrir að hún sinnti einhverjum hjúkrunarþætti hjá stefnda og hefði þá verið felldur niður samningur við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga um þann þátt.
Vitnin Helga Kristbjörg Sigurbjörnsdóttir og Pétur Helgi Pétursson staðfestu bæði að hafa orðið vitni að því að stefnandi hefði komið til að hjúkra vistmönnum utan hefð¬¬bundins vinnutíma.
Guðrún María Valgeirsdóttir settist í stjórn stefnda árið 2009. Hún lýsti því að sig minnti að framkvæmdastjóri hefði óskað eftir því að fá greitt fyrir bakvaktir og þá-verandi formanni verið falið að ræða við hana. Niðurstaðan hefði orðið að hún fengi ekki greitt fyrir bakvaktir, nema útköll þegar hjúkrunarfræðingur væri í leyfi. Hefði stjórn litið svo á að ráðningarsamningur tæki til allrar hennar vinnu.
Steinþór Heiðarsson situr í stjórn stefnda. Kvaðst hann hafa sest í hana árið 2010. Kvað hann bakvaktamál fyrst hafa komið upp á stjórnarfundi sem hann hefði setið, í janúar 2011. Tók hann fram að sér hefði virst það vera gegn vilja stefnanda að samið yrði um þetta við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga.

VI.
Eins og að framan er rakið krefst stefnandi í þessu máli greiðslu fyrir að hafa staðið bakvaktir í þágu stefnda frá og með september 2007 til og með febrúar 2011. Hefur hún lagt fram sundurliðað yfirlit yfir bakvaktirnar á þessu tímabili. Þá kom fram í skýrslum tveggja vitna að stefnandi hefði hjúkrað vistmönnum utan reglulegs vinnu-tíma, auk þess sem Helena Jónsdóttir kvað þær stefnanda hafa skipt því með sér að vera til taks að gegna útköllum. Að þessu athuguðu verður að telja nægilega upplýst að stefnandi hafi í raun sinnt útköllum á þessu tímabili. Verður því ekki fallist á það með stefnda að ósannað sé að stefnandi hafi í raun staðið bakvaktir. Hitt liggur einnig fyrir að stefnandi framvísaði ekki yfirlitum um bakvaktir við stefnda svo séð verði fyrr en í mars 2011.
Ráðningarsamningur stefnanda og stefnda sem var gerður árið 2004 er reifaður hér að framan. Fyrir liggur að stefnandi lagði þá til að hann yrði orðaður svo að hún væri hjúkrunarforstjóri auk þess að vera framkvæmdastjóri, en að á það var ekki fallist. Hljóðar samningurinn samkvæmt efni sínu eingöngu um að stefnandi yrði fram-kvæmdastjóri stefnda og eru þar rakin verkefni hennar í samræmi við það, en þess er þar að engu getið að hún sinnti jafnframt starfi hjúkrunarfræðings að einhverju marki. Kemur fram í bréfi frá stefndu til stefnanda sem er dagsett 13. september 2004 að henni hefði verið gert ljóst í öndverðu að ekki væri verið að ráða hjúkrunarfræðing en hún hefði tekið að sér að sinna hjúkrunarþætti sem Heilbrigðisstofnun Þingeyinga hefði sinnt fram að því. Kom þetta atriði einnig fram í framburði Tryggva Jóhanns¬sonar. Lýtur bréfið síðan að endurskoðun ráðningarsamnings vegna þess að hjúkrunar-þátturinn hefði aukist vegna tilkomu fjögurra hjúkrunarrýma hjá stefnda.
Þrátt fyrir að þannig væri ekki fallist á það við endurskoðun ráðningarsamn¬ings¬ins að stefnandi yrði titluð hjúkrunarforstjóri og að ekkert var þar tekið fram um að í starfi hennar fælist hjúkrun vistmanna, virðist stefnandi hafa sinnt þessum hjúkrunar¬þætti alfarið, fram til þess að Helena Jónsdóttir var ráðin til starfa hjá stefnda í lok ársins 2007.
Líta verður til þess að stefnandi fór með framkvæmdastjórn stefnda og var tekið fram í ráðningarsamningi hennar að hún skyldi skipuleggja og stjórna allri þjónustu-starfsemi á vegum stefnda og að hún mætti engin laun taka sjálfri sér til handa nema sam¬kvæmt samningnum. Verður að líta svo á að hún hafi metið það svo, hvort sem það var með réttu eða röngu, er ráðningarsamningur hennar var endurskoðaður með þess¬ari niðurstöðu árið 2004, að hún gæti sinnt þessum hjúkrunarþætti sjálf innan þeirra marka sem ráðningarsamningurinn setti um launafjárhæð og sveigjanlegan vinnu¬tíma.
Svo sem fyrr var getið bar stefnandi ábyrgð á daglegri starfsemi hjá stefnda sam-kvæmt ráðningarsamningi aðila. Verður að líta svo á að í því hafi falist að henni hafi borið að gæta þess í samráði við stjórn stefnda að stofnun stefnda væri nægilega mönn¬uð til að stefnda væri unnt að sinna skyldubundnum verkefnum sínum, þar með því, eftir því sem nauðsyn bar til, að unnt væri að kalla út hjúkrunarfræðing utan venjulegs vinnutíma. Af fyrrgreindum ráðningarsamningi verður ekki ráðið að stefn-andi hafi með honum tekist á herðar þá skyldu að sinna því sjálf að standa bakvaktir sem hjúkrunarfræðingur, án þess að fá greitt fyrir sérstaklega samkvæmt kjara¬samn¬ingi.
Ráðningarsamningur stefnanda hljóðaði um að henni væri óheimilt að taka sér laun eða önnur hlunnindi nema samkvæmt honum. Í þessu ákvæði hans felst að stefn¬anda var þar með ekki leyfilegt án sérstakrar heimildar að baka stefnda greiðslu¬skyldu gagnvart sér með því að fela sjálfri sér það verkefni að standa bakvaktir til að sinna útköllum, umfram það sem með góðu móti gat falist innan ákvæðis samningsins um sveigjanlegan vinnutíma hennar.
Fyrir liggur að a.m.k. á árinu 2009 óskaði stefnandi eftir því við stjórn stefnda að fá heimild til að greiða sér fyrir að standa bakvaktir en án árangurs að öðru leyti en því að stjórnin féllst á að hún fengi að greiða sér sambærilegar greiðslur og Helena Jónsdóttir fékk, í sumarleyfi Helenu árið 2010. Verður að líta svo á að stefnanda hafi átt að vera ljóst að það væri gegn vilja stjórnar að hún sinnti þessum þætti sjálf auk starfskyldna sinna sem framkvæmdastjóri samkvæmt ráðningarsamningi. Af því leiddi að hún hlaut sem framkvæmdastjóri að verða að finna aðra tilhögun á því að tryggja að hjúkrunarfræðingur væri á bakvakt við stofnun stefnda, eftir því sem nauðsyn krafði og gera stjórn stefnda þessa nauðsyn nægilega ljósa, ásamt því eftir atvikum hvaða kostnaður væri því samfara. Ekki verður séð að stefnandi hafi gert svo fyrr en við áramótin 2011-2012. Var í framhaldi af því brugðist við með því að semja um þetta atriði við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Þegar þetta er virt er ekki unnt að fallast á það með stefnanda að stefnda hafi mátt vera það ljóst að óhjákvæmilegt hafi verið að hún sinnti bakvöktum hjúkrunarfræðings sjálf og að af því leiddi þar með að stefnda væri skylt að greiða henni fyrir þær samkvæmt kjarasamningi. Ekki verður heldur á það fallist, með það í huga að stefnandi var ráðin sem framkvæmdastjóri, að brotin hafi verið á henni jafnræðisregla með því að ekki var fallist á að hún stæði bakvaktir sem hjúkrunarfræðingur.
Eftir þessu verður að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Rétt þykir þó að máls-kostn¬aður falli niður milli aðila.
Gagnsök var höfðuð til endurheimtu fjár sem stefnandi var talin hafa fengið of-greitt við starfslok. Greiddi stefnandi þessa fjárhæð undir rekstri málsins og var gagn-sök felld niður um annað en málskostnað. Ekki liggur fyrir að stefnandi hafi verið krafin um þessa fjárhæð fyrr en með höfðun gagnsakar og ekki verður á því byggt að hún hafi átt sök á því að hún var ofgreidd í öndverðu. Þegar af þessari ástæðu verður kveðið á um að málskostnaður falli niður í gagnsök.
Dóminn kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari. Gætt var ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

DÓMSORÐ:
Stefnda, Dvalarheimili aldraðra, Húsavík, er sýknað af kröfum stefnanda, Soffíu Önnu Steinarsdóttur, í máli þessu.
Gagnsök fellur niður um annað en málskostnað.
Málskostnaður fellur niður í aðalsök og gagnsök.

Erlingur Sigtryggsson


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband