Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013

Í lok árs........

Í dag er síðasti dagur ársins 2013 og á slíkum tímamótum sem áramót eru, getur verið gott að líta yfir farinn veg og íhuga hvar vel hefur tekist til og hvar hefði mátt gera betur. Þegar ég lít yfir árið fara margar hugsanir í gegnum höfuðið á mér. Langflestar eru fallegar en þó eru nokkrar sem seint munu teljast fallegar því miður! 

Fyrri hluti ársins leið og ég vann vinnuna mína á Sólvangi. Reyndar sagði ég upp í apríl en dró svo uppsögnina til baka gegn því að ég fengi launalaust leyfi í eitt ár. Það var samþykkt mér til mikillar gleði. Ég vil þó geta þess að mér finnst vinnan mín á Sólvangi skemmtileg og gefandi en á þessum tímapunkti varð ég að breyta einhverju í eigin lífil Ég byrjaði á vinnunni. Ég hélt áfram í crossfit og finnst það algerlega frábært. Ég fór á norskunámskeið, var svona að spá í að breyta til og í júli vil ég meina að ég hafi stigið stórt skref í átt til betra lífs þegar ég ákvað að fara að vinna í Noregi. Mér fannst að sjálfsögðu erfitt að fara frá fólkinu mínu, sérstaklega litla fólkinu mínu þeim Ingibjörgu Soffíu, Stefáni Daða og Margréti Birtu. Margrét Sif er hins vegar orðin fullorðin og hún var í íbúðinni okkar ásamt vinkonu sinni meðan ég var úti. Þær fóru semsagt að búa saman þessar elskur. Eftir því sem mér hefur skilist var þessi tími sem ég var í Noregi frábær hjá þeim þar sem þær brölluðu margt og mikið. 

Í Noregi var ég í ríflega fjóra mánuði og líkaði vel. Mér gekk líka vel og fannst fínt að upplifa það aftur að vera orðin "maur" eftir tæplega tvo áratugi í stjórnunarstöðum. Mér finnst það reyndar svo fínt að ég veit ekki hvort ég mun eiga afturkvæmt í stjórnunarstöðu.....

Það var gott að vera ein í Noregi og íhuga stöðuna, fara í naflaskoðun og horfa heim úr fjarlægð. Sumt varð skýrara en á öðru hef ég enn engar skýringar fengið (og fæ sjálfsagt aldrei) eða séð í bjartara ljósi. Það gerðist svo í haust að ég gat í fyrsta skipti hugsað þá hugsun til enda að erfiðleikar síðustu ára hefðu haft einhvern tilgang, nefnilega þann að koma mér úr landi. Opna dyrnar að Noregi og vinnu þar. Ég kynntist góðu fólki þennan tíma sem ég var í Noregi og það sýndi mér að ég á ekki í neinum erfiðleikum með samskipti við annað fólk. Ég ætla hins vegar ekki að flytja til Noregs að svo stöddu heldur vera áfram tímabundinn "flottamaður" í leit að jafnvægi og betra lífi.

Á síðustu tæplega þremur árum hefur líf mitt verið óvanalega flókið og á erfiðustu stundunum mjög erfitt og hreinlega leiðinlegt. Ég á góða fjölskyldu, litla fjölskyldu. Það er þó ekki stærðin sem skiptir máli eins og frægt er orðið LoL Ég á líka góða vini, fáa en góða. Ég á líka fullt af kunningjum sem margir hverjir þekkja mig lítið en bæði sumir þeirra og einhverjir vina minna ákváðu á einhverjum tímapunkti að blanda sér ekki á nokkurn hátt í þá baráttu sem ég hef háð síðustu ár. Það var þeirra ákvörðun og ég var alls ekki sátt við hana á sínum tíma en í dag hef ég komist yfir það. Það velur hver fyrir sig. Mér finnst það samt ennþá skrýtið (þegar ég leyfi mér að velta því fyrir mér) því ég hefði svo sannarlega staðið upp fyrir vini mína og/eða kunningja sem hefðu verið beittir svipuðu ranglæti og ég. Þetta er hins vegar liðin tíð og viðbrögðum fólks verður ekki breytt. Ég mun hins vegar ekki fyrirgefa þeim sem gerðu á minn hluta þegar ég var svipt starfinu, ærunni og heimili mínu á Húsavík. Einhverjir hugsa örugglega á þá leið að það væri nú líklega betra fyrir mig að fyrirgefa þessu fólki en ég hef hins vegar ákveðið að gera það ekki. Það er mitt val og ég er sátt við það. Ég veit vel fyrir hvað ég stend og ég veit hvað ég get. Ég get nefnilega allt sem ég ætla mér, maður þarf bara tíma til að koma sér í gang aftur eftir árásir liðinna ára. Ég veit að ég er ekki sú eina sem hef lent í erfiðleikum og margir eru verr staddir í lífinu en ég. Það breytir því hins vegar ekki að erfiðleikarnir lágu í leyni og réðust á mig þegar minnst varði. Kannski hef ég átt þetta allt saman skilið, ég veit það ekki. Finnst það samt heldur langsótt þó ég viti vel að ég er langt frá því að vera fullkomin. Ég stefni hins vegar alltaf að því að gera betur í dag en í gær.....

Það er gott til þess að hugsa að erfiðleikarnir séu að baki og bjartari tímar framundan. Lífið er undir manni sjálfum komið að svo mörgu leyti en þegar maður er sleginn út af laginu tímabundið getur verið erfitt að komast aftur á beinu brautina. Það er samt hægt og helsta verkfærið til að svo megi verða er JÁKVÆÐNI! Ég hef ekki alltaf verið jákvæðasta manneskjan á svæðinu og ég veit það líka að ég á það til að stuða fólk. Ég er bara ég og þú ert bara þú......og við eigum að virða hvert annað! 

Núna er farið að síga á seinni hlutann á þessum síðasta degi ársins. Mig langar til að enda þennan stutta pistil á því að óska ykkur öllum gleðilegs árs og þakka fyrir það liðna. Mig langar líka til að biðja ykkur að virða náungann, virða skoðanir annarra þó þær samrýmist ekki ykkar eigin og mig langar líka til að biðja ykkur að ganga hægt um gleðinnar dyr svona yfirleitt. Bætum á eldinn heima hjá okkur svo að öllum líði vel! Árið 2014 er óskrifað blað og við skulum vanda okkur við að skrifa það.

Góðar stundir

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband