Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2014
Áfram íslenskir læknar!
2.11.2014 | 15:26
Ástandið á Íslandi í dag er skelfilegt! Hvað eigum við að gera? HVAÐ eigum við að gera? Hvað eigum VIÐ að gera? HVAÐ EIGUM VIÐ AÐ GERA? Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör, því miður. Ég les hvern pistilinn á fætur öðrum um málið og heyri viðtöl við ráðamenn í útvarpi og sjónvarpi og enginn virðist hafa lausn á vandanum eða vit til að takast á við verkefnin sem hafa hrannast upp á síðustu árum. MÁLIÐ er læknaverkfallið og úrræðaleysi íslenskra stjórnvalda á erfiðum tímum.
Verkfall stóð yfir í síðustu viku og hefst aftur á miðnætti í kvöld. Afleiðingar þess eru margvíslegar og ég vona svo sannarlega að læknar nái fram kjarabótum. Þeir eiga það svo sannarlega skilið og allt tal um annað er bull. Ég vil eiga þess kost að hitta lækni þegar ég þarf á því að halda og vera örugg um að hann hafi þau úrræði sem hann þarf til þess að geta aðstoðað mig án þess að ég þurfi að greiða fyrir það ígildi handleggs eða annars álíka mikilvægs hluta af mér. Ég vil ekki bara eiga þess kost að hitta einhvern lækni, ég vil eiga þess kost að hitta hæfan lækni sem veit hvað hann syngur. Ég er líka viss um að ÞÚ vilt eiga kost á því sama. Ég segi eins og bróðir minn: "Ég vil ekki hitta rafvirkjann á Landspítalanum ef ég þarf á þjónustu læknis að halda". Íslenskir læknar flytja (þeir flýja ekki) unnvörpum erlendis með fjölskyldur sínar vegna þess að þeir geta ekki lifað mannsæmandi lífi á Íslandi nema með því að vinna endalausa yfirvinnu á kvöldin, nóttunni og um helgar, á jólum, páskum og öðrum stórhátíðum. Semsagt þegar flestir vilja vera í fríi. Bara svo því sé haldið til haga þá er ég hér að tala um vinnu sem unnin er til viðbótar 100% dagvinnu! Þegar þeir vinna svona mikið þá er ekki hægt að segja að þeir lifi mannsæmandi lífi! Eða hvað? Myndir þú vilja vinna eins og læknar gera? Að maður tali nú ekki um hættuna sem er samfara því álagi sem læknar starfa við, hættuna á mistökum og jafnvel ótímabærum dauða fjölda sjúklinga. Ég skil það vel að íslenskir læknar vilji ekki lengur vinna við þær aðstæður sem þeim er boðið upp á. Ég skil það vel að þeir flytji erlendis til að vinna á vinnustöðum sem bjóða upp á nýjustu tækni, betri vinnuaðstæður, hærri laun og barnvænna samfélag. Gleymum því samt ekki að margir vilja þeir helst vinna á Íslandi! Auðvitað færu alltaf einhverjir af landi brott þó að aðstæðurnar á Íslandi væru betri. Þeir væru samt miklu færri og fleiri ungir læknar kæmu aftur heim eftir að hafa lokið sérnámi.
Bjarni Ben segir að húsakostur Landspítala sé úreltur. Hvað er að frétta? Það vissi ég þegar ég hætti að vinna þar árið 1996! Síðan eru liðin mörg ár og ekkert hefur gerst annað en að ástandið hefur versnað. Það voru innlagnir á ganga á spítalanum þegar ég vann þar á árunum 1993-1996. Ekki hefur það batnað. Bjarni Ben segir líka að læknar eigi ekki að fá launahækkanir umfram aðra í samfélaginu. Þar er ég algerlega ósammála því þeir hafa svo sannarlega dregist aftur úr í launaþróun ef miðað er við aðrar stéttir annars vegar og lengd náms hins vegar. Að maður tali nú ekki um ábyrgðina!!! Þeir sem vilja bera saman laun lækna og ræstingafólks eru bjánar. Það er ekki sambærilegt!! Það er líka rangt sem margir halda að ef læknar fái launahækkunina sem þeir fara fram á fari allt af stað í þjóðfélaginu með tilheyrandi verðbólgu og veseni. Peningarnir eru til en þeim er misskipt. Þeim er skipt á milli fárra einstaklinga og fyrirtækja sem hafa hagsmuni af því að halda þjóðinni í heljargreipum. Það er búið að rífa úr okkur vígtennurnar eftir áralanga misnotkun og venjulegir Íslendingar eru dauðþreyttir, vonsviknir og blankir!
Við verðum að breyta þessum moldarkofahugsunarhætti ef við ætlum að byggja þetta dásamlega land áfram með öðrum en Engeyjar-, Kögunarfjölskyldunum og fjölskyldum sjávargreifanna!
Ég skora á Ríkisstjórn Íslands að ganga fram fyrir skjöldu og semja við lækna og það strax!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)