Hugleiðing um hlutverk stjórna öldrunarstofnana á Íslandi

Sakleysisleg yfirskrift en undanfarin ár hef ég leitað svara við því hvert hlutverk þessara stjórna sé, án árangurs. Á þeirri stofnun sem ég starfa við, er stjórn sem valin er svokölluðu pólitísku vali. Það þýðir að þeir flokkar sem hafa betur í sveitastjórnarkosningum (oftast) á fjögurra ára fresti, eiga flesta menn í stjórn og/eða formann stjórnarinnar. Svona hefur þetta verið á mörgum öldrunarstofnunum á Íslandi svo áratugum skiptir og ég hef ekki séð neinn gera athugasemdir við það fyrirkomulag.Hvert er hlutverk þessara stjórna? Veit það einhver? Ég hef leitað að einhverju sem skrifað er svart á hvítu þar sem fram kemur hvert hlutverk þeirra sé, og til að gera langa sögu stutta hef ég ekkert fundið. Mér finnst það dálítið merkilegt og jafnframt þykir mér það styðja það álit mitt að stjórnir þessara stofnana séu óþarfar meðan þær eru mannaðar á þennan hátt! Djúpt í árinni tekið? Kannski, en rekstur öldrunarstofnana er erfiður á Íslandi og því væri gott ef stofnanirnar væru lausar við þann kostnað sem fylgir því að hafa stjórnir mannaðar misvitrum stjórnmálamönnum og -konum sem mörg hver hafa hagsmunapot að leiðarljósi í sinni vinnu. Það er ekki víst að allir séu sammála því, en ég er sannfærð um það, að ef stjórnir þessara stofnana væru mannaðar fagfólki, t.d. læknum, hjúkrunarfræðingum, félagsráðgjöfum, iðjuþjálfum, viðskiptafræðingum eða lögfræðingum, þá væru þær bæði virkari og gerðu meira gagn. Þegar fólk tekur að sér að vera í stjórn, gerir það það væntanlega í ákveðnum tilgangi, ekki satt? En hver er þessi tilgangur? Jú, vonandi er hann sá að þetta fólk vilji láta gott af sér leiða. En fyrir hverja? Ég get bara svarað þessari spurningu fyrir mig og það er mín tilfinning að það sé ekki tilgangur allra stjórnarmanna og/eða stjórnarkvenna að vinna að bættum hag aldraðra Íslendinga. Mig langar að nota þetta tækifæri til þess að leggja til að framvegis verði stjórnarfólk í stjórnum öldrunarstofnana á Íslandi að hafa menntun og/eða reynslu, sem nýtist þeim í stjórnarstarfi. Það væri líka gott ef áhugi á starfsemi stofnunarinnar væri fyrir hendi. Að lokum óska ég eftir upplýsingum um það hvert sé hlutverk þessara stjórna........einhver? Með bestu kveðju og óskum um gleðilegt sumar.........

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þessi grein þín er þörf og sönn.

Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að hlutverk öldrunastofnana á Íslandi hefur breyst mikið undan farna áratugi, úr því að vera dvalarheimili yfir í að vera sjúkrastofnun. Þetta hefur orsakast vegna þess fjármagns sem ríkið leggur þessum stofnunum til, meira er greitt frá ríki vegna sjúkrarýmis en dvalarrýmis.

Því hafa margar eða flestar þessara stofnana séð sér hag í að fjölga sjúkrarýmun á kostnað dvalarrýma, jafnvel þó kostnaður við þau sé mun meiri. Þetta hefur aftur leitt til þess að nýting öldrunarrýma sjúkrahúsana hefur minnkað verulega, svo mikið að sum sjúkrahús hafa lokað þeim og láta standa auð.

Vissulega er þörf á sjúkrarýmum á öldrunarstofnunum, en að megninu til ætti þó sú starfsemi að fara fram innan sjúkrahúsana, þar sem aðgengi að læknum er oftast mun betra en á öldrunarstofnun.

Dvalarheimili aldraðra á að vera, eins og nafnið ber með sér, dvalarheimili. Staður sem fólk getur dvalið á síðustu æviár sín, áhyggjulaust.

Nú er staðan hins vegar orðin sú að enginn kemst inn á slíka stofnun nema geta sýnt fram á verulega þörf fyrir aðstoð, oftast það mikla að sjúkrahúsvist væri betri.

Gunnar Heiðarsson, 19.5.2011 kl. 20:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband