Pólitíkin á Húsavík og nærsveitum

Stjórn DA skrifar í Skarp í dag og þykist þar vera að svara grein minni í blaðinu frá því í síðustu viku. Mér þykir með ólíkindum hvað þetta fólk getur sett á blað og flestu því sem þau segja í sinni grein er hægt að vísa til föðurhúsanna.

Það er rétt að þingmenn VG heimsóttu Húsavík í kjördæmaviku síðastliðinn vetur og ég fékk af því fregnir í tölvupósti frá Trausta Aðalsteinssyni stjórnarmanni í DA að þau væru væntanleg. Ég sendi Trausta póst til baka og bað hann að athuga hvort þingmenn hefðu tíma til að koma í heimsókn í Hvamm, sem þau og gerðu. Sá tölvupóstur fór á alla stjórnarmenn! Þannig að skrif stjórnar um að þau hafi ekki fengið boð um þann fund eða heimsókn er tóm steypa.

Hvað er það annað en að svipta mann mannorðinu þegar maður er boðaður á fund þar sem fundarefni fæst ekki uppgefið og er á þeim sama fundi sviptur vinnunni með uppsagnarbréfi eins og því sem ég fékk? Stjórn talar um að allir hafi talað af skynsemi og enginn hafi misst stjórn á sér. Hið rétta er að lögmaður stjórnar talaði og hvers vegna hefði hann átt að missa stjórn á sér? Uppsögnin var algerlega tilhæfulaus og ég fer ekki ofan af þeirri skoðun minni að annarlegar hvatir ákveðinna stjórnarmanna lágu þar að baki. Ég skil hins vegar ekki þessa heift stjórnarmanna í minn garð.

Stjórn skrifar að uppsögnin hafi verið lögmæt. Hvers vegna fóru þau þá ekki alla leið, þ.e. með kæru í ráðuneyti sveitastjórnamála? Hið rétta er að lögmaður FÍH sýndi fram á að aðrar starfsstéttir en hjúkrunarfræðingar í Hvammi, t.d. sjúkraliðar eru opinberir starfsmenn og þess vegna ljóst að ég væri það líka. Til þess að hægt sé að segja opinberum starfsmönnum upp störfum þarf ákveðið ferli sem ekki átti sér stað í mínu tilfelli. Þar fyrir utan var kveðið á um það í ráðningarsamningi mínum að um kjör mín færi samkvæmt samningi FÍH og fjármálaráðherra eins og hann væri hverju sinni. Það þýðir að ég var opinber starfsmaður. Það er því alger misskilningur hjá stjórn að ég hafi verið starfsmaður sveitarfélagsins og þess vegna hægt að segja mér upp störfum á þann hátt sem þau gerðu. Ég fór fram á að fá greiddan uppsagnarfrest sem var 6 mánuðir og 6 mánuði til viðbótar vegna áunnins orlofs og ólögmætis uppsagnarinnar. Endirinn varð sá að ég fékk greidda 4 mánuði til viðbótar uppsagnarfresti. Þessir 4 mánuðir eru annars vegar áunnið orlof (ríflega 2 mánuðir) og hins vegar miskabætur vegna uppsagnarinnar. Semsagt ekki víðs fjarri því sem ég fór fram á eins og stjórn heldur hins vegar fram í grein sinni í Skarpi í dag. Í fundargerð stjórnar DA kemur hins vegar fram að ég hafi fengið greiddan einn mánuð til viðbótar uppsagnarfrest. Enn ein rangfærslan í málflutningi stjórnar og gott dæmi um lítinn trúverðugleika hennar. Dæmi nú hver fyrir sig!

Soffía Helgadóttir talaði við Freyju Dögg Frímannsdóttur á RÚV daginn eftir að mér var vikið úr starfi og í umfjöllun Freyju Daggar kom fram að um trúnaðarbrest hafi verið að ræða og upphæð bakvaktakröfunnar kom einnig fram. Hvort tveggja haft eftir Soffíu Helgadóttur formanni stjórnar DA.Stjórn DA segir í grein sinni að ég og Helena Jónsdóttir höfum sagt að við myndum hætta störfum í Hvammi ef ákveðið yrði að fara í samstarf við HÞ um hjúkrunarþjónustu. Enn ein rangfærsla í málflutningi stjórnar DA því við höfum aldrei sagt neitt slíkt! Það er einnig mjög ósmekklegt að stjórn skuli draga nafn Helenu inn í þessi mál á þennan hátt. Mér þykir hins vegar ekkert óeðlilegt við þá skoðun mína að starfsfólk Hvamms eigi að njóta þeirrar vinnu sem þar skapast en ekki starfsmenn annarra stofnana.

Ég ræddi við Jón Helga og spurði hann út í möguleika á samstarfi hvað varðaði bakvaktir á nóttunni því það var það sem stjórn hafði beðið um. Stjórn bað aldrei um neitt annað og því er skrifum stjórnar um þetta efni vísað til föðurhúsanna.

Varðandi bakvaktakröfuna mína þá þykir mér sérstakt að stjórn skuli skrifa : „Tugmilljóna krafa vegna bakvakta verður miðað við orð Soffíu Önnu, leidd til lykta fyrir dómi....“ Stjórn hefur frá upphafi hafnað þessari bakvaktakröfu minni og formaður stjórnar lét þau orð falla á stjórnarfundi að þetta yrði leyst fyrir héraðsdómi! Semsagt ekki mín ákvörðun! Þar fyrir utan er upphæð bakvaktakröfunnar til komin á þann hátt að 32 milljónir eru laun en afgangurinn dráttarvextir. Ég veit að fólki finnst þetta há upphæð en hún tekur mið af þeim launum sem ég hafði í starfi mínu sem framkvæmdastjóri og til að öllu sé nú til haga haldið þá var ég á bakvakt allan sólarhringinn svo vikum og mánuðum skipti og var oft í vinnu 16-18 tíma á sólarhring. Eftir að hafa reynt í 7 ár að fá stjórn DA til að greiða mér fyrir þessa vinnu gafst ég upp og leitaði til míns fagfélags. Lái mér það hver sem vill!

Þegar stjórn DA ákvað að fara út í það að byggja íbúðirnar við Útgarð, get ég einungis sagt  að mín skoðun á því var sú að ekki ætti að gera það, einmitt af þeim ástæðum sem stjórn tilgreinir í sínum skrifum. Ég hins vegar réði engu um þetta og ákvörðunin alfarið þáverandi stjórnar en ekki mín. Ég hafði eingöngu málfrelsi og tillögurétt á stjórnarfundum en ákvörðunin var alfarið stjórnarinnar og framkvæmdastjóri var starfsmaður hennar.

Ég vil líka ítreka það að Leigufélagið og byggingadeild DA eru ekki hluti af Hvammi, heimili aldraðra, heldur sjálfstæðar einingar hverra rekstur er á ábyrgð aðildarsveitarfélaganna. Hvammur er líka á ábyrgð þeirra en rekstur hans er allt annars eðlis, ekki síst vegna þess að rekstrarfé Hvamms kemur frá ríkinu en ekki sveitarfélögunum.

Ég er svo sannarlega á þeirri skoðun að núverandi stjórn DA sé dáðlaus (svo ég taki mér orð stjórnar í munn) og langt frá því að vera starfi sínu vaxin en það er ekki rétt að mér hafi fundist allar stjórnir frá 2004 ómögulegar. Ég hef hins vegar gagnrýnt það að fólk sem setið hefur í stjórn DA skuli hafa getað mætt illa eða algerlega óundirbúið á fundi og komist upp með það, auk þess að setja sig ekki inn í þau mál sem í gangi eru hverju sinni.

Með þessu svari mínu lýk ég skrifum um þetta mál og önnur er tengjast fyrrum starfi mínu hjá DA.

Soffía Anna Steinarsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband