Hafa skal það sem sannara reynist.....
15.6.2011 | 20:43
Uppsögnin
Miðvikudagurinn 30.mars 2011 mun seint liða mér úr minni. Þá gerðist það að ráðist var á persónu mína og mannorð með þeim hætti sem ég hélt að ég ætti aldrei eftir að upplifa. Þannig er mál með vexti að ég (eins og þið mörg vitið) var framkvæmdastjóri DA í tæplega 9 ár. Þessi ár voru bæði erfið, skemmtileg, ögrandi, krefjandi, gefandi og allt þar á milli. Það sem stendur þó upp úr eru samskipti við yndislegt fólk, bæði skjólstæðinga, aðstandendur og samstarfsfólk. Þó ég segi sjálf frá tel ég að ég hafi verið farsæl í mínu starfi hjá DA, margt hefur áunnist og Þingeyingar geta státað af því aldraðir fá hér framúrskarandi þjónustu. Það má með sanni segja að uppsögnin kom mér gersamlega í opna skjöldu því ég vissi ekki til að ég hefði brotið neitt af mér en uppsagnarbréfið bar með sér að ég hlyti að vera hinn versti glæpamaður. Formaður stjórnar DA, Soffía Helgadóttir, boðaði til stjórnarfundar seinnipart mánudagsins 28. mars og átti fundurinn að eiga sér stað þann 30. mars kl. 13. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fékk ég ekki uppgefið hvað ætti að taka fyrir á fundinum. Þegar að fundinum kom mætti stjórnin með lögmann með sér og þau gátu ekki einu sinni afhent mér uppsagnarbréfið sjálf, heldur létu þau lögmanninn um það og að auki hafði hann orð fyrir stjórninni. Þar með var það búið og ég gekk út af fundinum, starfinu og mannorðinu fátækari. Ég mátti fara og taka saman persónulegar eigur mínar, sem ég og gerði. Þegar því lauk fór ég og kvaddi skjólstæðinga og samstarfsfólk og sagði þeim að mér hefði verið sagt upp störfum og óskað væri eftir því að ég hætti strax.
Aðdragandi uppsagnar
Aðdragandinn að þessari ljótu uppsögn var enginn og þó að stjórn DA tali um ágreining og trúnaðarbrest þá var hvorugt til staðar að mínu mati. Ég kalla það ekki ágreining þó að ég sem framkvæmdastjóri hafi nýtt málfrelsi mitt og tillögurétt á stjórnarfundum en stjórninni þótti það greinilega ekki við hæfi og líklegasta ástæðan að mínu mati væntanlega sú, að ég hafði tjáð mig um að ég teldi óeðlilegt að þau mættu endalaust óundirbúin á fundi, settu sig ekki inn í rekstur og þau mál sem í gangi voru og fleira í þeim dúr. Þau hafa líklega ekki þolað það enda hafin yfir gagnrýni að eigin mati. Reyndar var formaður stjórnar í einu af mörgum samtölum okkar frá því hún tók við, sammála mér um að stjórnarfólk mætti óundirbúið á fundi og lítið væri um frumkvæði. Í annan stað var á það minnst í uppsagnarbréfinu að ég hafi opinberlega vegið að persónum stjórnarmanna með hugleiðingum mínum um hlutverk stjórna öldrunarstofnana á Íslandi, sem birtist á www. samtok.is þann 21. mars sl. Það er hins vegar ekki rétt, enda er hvergi í þeim pistli minnst á stjórn DA sérstaklega. Í þriðja lagi segir stjórn mig hafa leitt óeðlilega hagsmuni í fjármálum og eftir því sem lögmaður þeirra sagði mér, þá snýr það að þeirri kröfu minni að fá greitt fyrir bakvaktir. Formaður stjórnar blés þetta upp í viðtali á RÚV en lét það ógert að ræða það sem á undan hafði gengið. Ég hafði hins vegar í 7 ár reynt að fá stjórn til að greiða mér fyrir þá vinnu sem ég vann umfram 40 stunda vinnuviku og hafði lagt fram tillögur í þeim efnum sem ávallt var hafnað. Á þessum 7 árum hefur starfsemi Hvamms breyst töluvert þar sem dvalarrýmum hefur verið breytt í hjúkrunarrými og þess vegna getur viðvera hjúkrunarfræðings verið nauðsynleg á öllum tímum sólarhrings, auk þess sem Landlæknisembættið fer fram á það að þar sem svo er háttað að ekki sé hægt að manna allar vaktir með hjúkrunarfræðingum, sé hjúkrunarfræðingur ætíð á bakvakt. Ég tók málið upp árið 2004 en þá brá stjórn Hvamms á það ráð að taka út úr ráðningarsamningi mínum allt sem við kom hjúkrun. Ég hafði samt verið ráðin í Hvamm á sínum tíma vegna þess að ég er hjúkrunarfræðingur. Hvað átti ég að gera? Ég varð að sinna þjónustunni áfram því ekki fékk ég leyfi hjá stjórn til að ráða inn fleiri hjúkrunarfræðinga fyrr en í lok árs 2007 en þá hóf Helena Jónsdóttir störf í Hvammi. Árið 2006 tók ég málið upp að nýju við stjórn en allt var við það sama. Enn einu sinni tók ég málið upp árið 2009 og þá var málið afgreitt þannig að þáverandi formaður stjórnar, Bergur Elías Ágústsson, átti að ræða málið við mig. Það er ekki annað um það að segja en að hann gerði það aldrei. Á árinu 2010 neitaði ég að sinna bakvöktum í fjarveru Helenu Jónsdóttur, nema ég fengi að lágmarki greitt fyrir útköll. Þá samþykkti stjórnin að mér yrði greitt fyrir útköll tímabundið. Í fjórða sinn tók ég málið upp í janúar á þessu ári og formaður stjórnar bað mig þá um að reikna út hvað það myndi kosta félagið að greiða fyrir bakvaktir annars vegar og ráða inn fleiri hjúkrunarfræðinga hins vegar. Það gerði ég og var það lagt fram á stjórnarfundi daginn eftir. Á þeim sama fundi tilkynnti ég stjórn félagsins að ég hefði leitað til míns fagfélags og það mundi sækja rétt minn 4 ár aftur í tímann hvað varðaði greiðslur fyrir bakvaktir. Það mál er nú í eðlilegu ferli þar sem því er ekki til að dreifa að stjórn DA hafi séð sóma sinn í því að ræða málið við mig. Það sést í fundargerðum að stjórn DA kynnti kröfu mína um bakvaktir á fundum í aðildarsveitarfélögunum, en það vakti sérstaka athygli mína að á þeim fundi bæjarráðs Norðurþings þar sem bakvaktakrafan var til umfjöllunar, voru tveir núverandi og tveir fyrrverandi stjórnarmenn í stjórn DA, auk Jóns Helga Björnssonar og Gunnlaugs Stefánssonar. Hefði ekki verið eðlilegt að bæði núverandi og fyrrverandi stjórnarmenn í DA hefðu vikið af fundi og varamenn kallaðir til þegar málið var rætt? Í annan stað þykir mér mjög sérstakt að stjórn hafi farið með þessa bakvaktakröfu mína fyrir sveitarstjórnir aðildarsveitarfélaganna því ég veit ekki betur en hún starfi í fullu umboði allra sveitarstjórnanna og þurfi ekki að bera slíkt sérstaklega undir þær. Gott dæmi um vanhæfni stjórnar DA að mínu mati. Stjórn DA hefur aldrei komið með hugmyndir að lausn bakvaktamálsins heldur einungis gert það sem hér á undan hefur verið rakið. Því skal haldið til haga að ég hef aldrei sóst eftir því að sinna bakvöktum í Hvammi en mér var nauðugur sá kostur þar sem ég fékk ekki leyfi til að ráða fleiri hjúkrunarfræðinga. Stjórn sá heldur aldrei ástæðu til þess að berjast fyrir auknum fjárframlögum til Hvamms á þessum tíma þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir mínar þar um.
Hlutur Jóns Helga og Bergs Elíasar
Jón Helgi Björnsson forstjóri HÞ segist ekki hafa komið að uppsögn minni. Þegar ég hins vegar leitaði til hans sem fulltrúa stærsta eiganda Dvalarheimilis aldraðra vegna ákveðins máls, hótaði hann mér því að ef ég hefði áhuga á því að vinna áfram í Hvammi skyldi ég láta bakvaktakröfuna niður falla. Það væri gaman að sjá hann standa frammi fyrir læknunum eða hjúkrunarfræðingunum á HÞ og segja þeim að þau fengju ekkert greitt fyrir að vera á vöktum eða bakvöktum. Á þessum sama fundi spurði ég Jón Helga hvers vegna ákveðið hefði verið að setja Soffíu Helgadóttur inn í stjórn DA sem formann. Svarið var einfalt hjá Jóni Helga; hún var atvinnulaus!Bergur Elías Ágústsson sveitarstjóri kom á starfsmannafund í Hvammi daginn eftir að mér var sagt upp og samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið af þeim fundi sagði hann starfsfólki að ákvörðun um uppsögn mína hefði verið tekin af öllum aðildarsveitarfélögum DA. Þá spyr ég; hvor segir satt frá, Jón Helgi eða Bergur Elías? Samkvæmt þessum sömu upplýsingum sagði Bergur Elías starfsfólki að stjórn hefði reynt að semja við mig í 2 ár en eins og fram hefur komið hér að framan er það svo sannarlega ekki rétt. Hvers vegna hefði stjórn líka átt að vera að reyna að semja við mig ef þau álitu að ég ætti ekki rétt á launum fyrir bakvaktir (eins og fram kemur í fundargerð bæjarráðs Norðurþings þegar bakvaktakrafan var þar til umfjöllunar)? Þegar menn ákveða að segja ósatt, eins og Bergur Elías í þessu tilfelli, ættu þeir að vanda sig betur, eða hvað? Í annan stað tilkynnti hann starfsfólki á þessum sama fundi að stjórn hefði að verulegu leyti þurft að vinna störf framkvæmdastjóra undanfarna mánuði og enn sagði hann ekki rétt frá. Þar hefur hann líklega átt við samningaviðræður Hvamms við Fatahreinsun Húsavíkur, en þar kom einn stjórnarmaður að málum ásamt mér. Þessar samningaviðræður snerust af hálfu stjórnar DA frekar um að halda Fatahreinsun Húsavíkur gangandi en hagsmuni Hvamms. Þennan sama dag (31. mars) er mér sagt að haldinn hafi verið fundur með íbúum Hvamms, fundur sem starfsfólk fór fram á að yrði haldinn, því a.m.k. hluta stjórnar hafi fundist að þetta kæmi gamla fólkinu ekki við!! Sá hluti stjórnar sem mér skilst að hafi mætt seint og um síðir, gat lítið sagt annað en að það mætti alls ekki kasta rýrð á störf mín! Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Hvað höfðu þau sjálf gert daginn áður???
Greiðslur aðildarsveitarfélaga DA
Aðildarsveitarfélög DA hafa árlega greitt framlög til byggingadeildar félagsins (sem á og rekur allar byggingar þess á lóð Hvamms, Kópaskeri og Raufarhöfn) og Leigufélags Hvamms (sem á blokkina við Útgarð). Þessi framlög eru notuð til að greiða afborganir af lánum sem á þessum byggingum hvíla og það er ljóst að halli hefur verið á þessum rekstri ekki síður en Hvammi og er sá halli til kominn vegna kostnaðar við viðhald á eldri byggingunum og kostnaðar við byggingu blokkarinnar við Útgarð.Bæði stjórn DA og Bergur Elías halda því fram að sveitarfélögin hafi greitt háar upphæðir til rekstrar Hvamms. Það er svo sannarlega ekki rétt því sveitarfélögin hafa ALDREI greitt eina krónu til Hvamms. Allt rekstrarfé Hvamms hefur komið frá ríkinu í formi daggjalda, húsnæðisgjalda og launabóta. Mikið af tíma mínum undanfarin ár hefur farið í að reyna að fá viðurkennd fleiri hjúkrunarrými í Hvamm til þess að tryggja rekstrargrundvöllinn og bæta þjónustuna. Stjórn Hvamms kom aldrei að þeirri vinnu fyrr en Soffía Helgadóttir var fengin til þess vorið 2010 að gera úttekt á Hvammi, úttekt sem átti að sýna fram á að Hvammur hefði verið að sinna þjónustu sem ekki fékkst að fullu greitt fyrir. Það að fara í slíka úttekt var hugmynd Bergs Elíasar sem þá var formaður stjórnar og Guðbjarts Ellerts fjármálastjóra Norðurþings sem einnig sat í stjórn og vinnan við úttektina var greidd af Norðurþingi. Málið var hins vegar þannig vaxið að ég var búin að vera í stöðugum samskiptum við ráðuneyti félags- og síðar velferðarmála vegna þessa og á þessum tímapunkti hafði ráðuneytið viðurkennt að á þjónustusvæði Hvamms vantaði fleiri hjúkrunarrými. Úttektin sem slík var því algerlega óþörf! Annað dæmi um fáránlegt verklag og vanhæfni stjórnar DA.Stjórn DA, ásamt Bergi Elíasi sveitarstjóra og Jóni Helga forstjóra HÞ hefur undanfarnar vikur reynt að telja fólki trú um að Hvammur eigi í fjárhagsvanda. Ég fullyrðið hins vegar að sú sé ekki raunin, enda hefur Ríkissjóður Íslands nú þegar greitt halla Hvamms vegna ársins 2010, sem nam 35 milljónum. Það var gert 28. febrúar sl. Það stendur einnig til að á haustdögum verði hallinn vegna ársins 2009 greiddur, a.m.k. að hluta. Ég lagði fram drög að fjárhagsáætlun fyrir árið 2011 áður en ég hætti störfum í Hvammi og það var í fyrsta sinn í mörg ár sem Hvammur var ofan við núllið. Stjórn DA og skósveinar hennar eru hins vegar ekkert að flíka þessum upplýsingum, líklega til að reyna að koma því til skila til ykkar að ég hafi verið látin fara vegna einhverrar fjármálaóreiðu. Sú er hins vegar ekki raunin og svona til upplýsingar þá langar mig að segja frá því hér að þegar Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman og Björn Valur Gíslason komu á stuttan fund með mér í Hvammi í vetur til að tilkynna að halli ársins 2010 yrði greiddur að fullu, mætti ekki einn einasti stjórnarmaður! Áhugaleysi? Maður spyr sig....
Aukinn fjöldi hjúkrunarrýma í Hvammi
Þann 1. janúar sl. var hjúkrunarrýmum í Hvammi fjölgað um 12. Hvammur var þannig annað tveggja heimila á landinu þar sem slíkum rýmum var fjölgað og það var svo sannarlega ekki stjórn DA að þakka. Ég þarf ekki á sérstöku þakklæti að halda fyrir það að hafa unnið af heilindum fyrir Hvamm þau ár sem ég var þar starfandi. Ég fer hins vegar fram á það að fólk fari rétt með staðreyndir og það hafa þeir einstaklingar sem í stjórn DA sitja, ásamt Bergi Elíasi og Jóni Helga ekki gert.
Mannorðsmissir
Hvernig stendur á því að þeir einstaklingar sem sitja í sveitarstjórnum aðildarsveitarfélaga DA, kynna sér ekki málið? Hvers vegna hefur ekkert heyrst frá þessu fólki? Er það eðlilegt að starfsmaður stofnunar (í þessu tilfelli ég) sé tekinn af lífi á þennan hátt? Það er ljóst að ég hef ekki einungis misst vinnuna og mannorðið í þessu samfélagi, heldur sé ég líka fram á það að ég missi heimili mitt þar sem ég þarf að flytja búferlum. Langstærstur hluti starfsmanna DA, íbúar Hvamms og aðrir skjólstæðingar söfnuðu undirskriftum þar sem vinnubrögð stjórnar DA voru fordæmd. Í kjölfarið kom einnig bréf i Skarpi, undirskrifað af 32 starfsmönnum DA þar sem farið var fram á afsögn stjórnar DA. Ég er óendanlega þakklát þessu fólki sem bæði í orði og verki hefur sýnt mér stuðning á þessum erfiða tíma og vildi óska þess að ég gæti búið hér áfram og starfað eins lengi og ég sjálf óska en því miður er sú ekki raunin. Ég held hins vegar að við getum verið sammála um að svo stórar ákvarðanir sem búferlaflutninga viljum við öll taka á eigin forsendum.
Samstarf Hvamms og Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga
Það samstarf hefur verið mjög gott í gegnum tíðina, þó með nokkrum undantekningum eftir að Jón Helgi tók við stjórnartaumunum á HÞ. Það er mín skoðun að Jón Helgi hafi átt þátt í uppsögn minni, og að auki er ég viss um að allt síðan hún átti sér stað, hafi hann unnið að því hörðum höndum að fá leyfi til að bjarga stjórn DA með því að taka Hvamm yfir (þó hann hafi haldið öðru fram). Málið er nefnilega það, að stjórn DA er ekki starfi sínu vaxin og Þingeyingar hafa að mínu mati ekkert með þetta fólk að gera í stjórnun öldrunarþjónustunnar. Það sem mér þykir hins vegar verra er að þessi yfirtaka HÞ á Hvammi er ekki gerð með hagsmuni skjólstæðinganna og starfsfólksins að leiðarljósi, heldur er þetta pólitík í sinni ljótustu birtingarmynd. Stjórn DA og sveitarstjórnir aðildarsveitarfélaga DA hefðu betur beitt sér fyrir því fyrr að styrkja rekstur Hvamms og nýta sín pólitísku ítök til þess . Jón Helgi hefur látið í veðri vaka að miklir fjármunir muni sparast vegna yfirtöku HÞ á Hvammi og þá sérstaklega kostnaður við yfirstjórn. Þá spyr ég: hvaða yfirstjórn? Hvamms eða HÞ? Mér sýnist Jón Helgi ætla að spara í yfirstjórn HÞ þar sem stjórn DA situr sem fastast og þiggur aukin laun vegna fjölgunar funda síðustu 2 mánuði. Málið hefur ekki verið hugsað til enda og ég sem íbúi og skattgreiðandi hér, tek undir með stærstum hluta starfsmanna DA, íbúum Hvamms og öðrum skjólstæðingum og fer fram á það að stjórn DA verði láti víkja. Það er reyndar hreint með ólíkindum að nokkrir einstaklingar hafi svo mikið vald sem að framan greinir og komist upp með að misnota það á þennan hátt. Ég óska einnig eftir því að við sem hvergi komum að málum varðandi þessa yfirtöku HÞ á Hvammi fáum að sjá hvað til grundvallar liggur og menn sýni það svart á hvítu hver ávinningurinn á að verða.
Að lokum
Nú hefur verið sýnt fram á að uppsögnin var ólögmæt og lögmaður stjórnar DA og lögmaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hafa undanfarnar vikur verið í samningaviðræðum um lok málsins. Samningar um starfslok tókust í síðustu viku en það væri nú að æra óstöðugan að ætla að greina frá því hvernig þær samningaviðræður gengu fyrir sig og svona til upplýsingar fyrir ykkur sem þetta lesið mun krafa mín um ógreiddar bakvaktir 4 ár aftur í tímann fara fyrir héraðsdóm í haust.
Ég vil nota þetta tækifæri og þakka þeim sem hafa verið mér samferða hér síðastliðin 15 ár kærlega fyrir allt sem á vegi okkar hefur orðið ég er að mörgu leyti ríkari eftir veruna hér og hefði svo sannarlega viljað að hún endaði á öðrum nótum en það verður ekki við öllu séð í lífinu svo mikið er víst.
Með bestu kveðju,
Soffía Anna Steinarsdóttir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.